Sólon Breki Leifsson

Sólon Breki Leifsson. Instant hero! Just add Leiknir. Drengurinn kom til Leiknis í byrjun árs 2018 og er ekki nema 20 ára ennþá. En hann kom, sá og sigraði í liði Leiknis. Hann er hreinræktaður sóknarmaður og mikill hvalreki fyrir okkur stuðningsmenn. Það hefur lengi vantað mann eins og hann sem getur bæði gert sér mat úr þröngu færi og búið þau til úr engu. Hann spilaði 17 leiki með Leikni á sínu fyrsta tímabili og setti 11 mörk í þeim leikjum.
 

Hans var sárt saknað þegar hann var frá í fyrra og því er mikilvægt að hafa hann ferskan núna. Stefán og co. hafa vafið honum í bómul í vetur sem skilar sér vonandi í að þessi stóðhestur mæti bandbrjálaður út á grasið í Inkasso-ástríðunni í sumar og setji a.m.k. mark í leik til að tryggja stöðu Leiknis snemma á tímabilinu. 

Eins og svo margir aðrir er Sólon uppalinn Bliki en ólíkt mörgum öðrum virtist hann fá tækifæri í Meistaraflokki þar en tókst ekki að skora mark í þeim 20 leikjum sem hann spilaði á þremur árum í bikar og Pepsi-deild. Það er okkur óskiljanlegt því hjá okkur gerir hann ekki annað en að skora. Þiggjum það með þökkum. 

Hann setti boltann hins vegar margoft á láni hjá Vestra í 2.deild sumarið 2016 og var kominn í þeirra raðir á haustmánuðum 2017 en það kom eitthvað babb í bátinn og voru Leiknismenn séðir þegar þeir sópuðu honum upp í byrjun síðasta árs. 

Í lok síðasta tímabils kusu stuðningsmenn Leiknis Sólon sem besta leikmann tímabilsins og gladdi það hann svo mikið að hann skrifaði undir nýjan samning út 2021 við félagið. Þetta er ástarævintýri sem getur ekki annað en endað í fastri viðveru í Pepsi-deildinni með styttu af þessum meistara við innganginn á Austurberginu. 

NO PRESSURE!