Upphitun: Haukar í heimsókn og Leiknisgoðsögn kvödd

Luka Kostic er mættur til að bjarga rauðklæddu Hafnfirðingunum frá falli og á endurreisnin víst að byrja á Leiknisvelli á föstudagskvöld. Þar að auki ætla Leiknismenn að kveðja mikla hetju í sögu félagsins en Ómar Kristvinsson féll frá á föstudaginn síðasta. Mínútu þögn verður tekin og leikmenn munu spila með sorgarbönd af þessu tilefni.


Ómar er hér lengst til vinstri í aftari röð með meistaraflokksliðinu 1986

Fyrir þá sem eru í yngri kantinum þá var Ómar einn af stofnendum félagsins og þjónaði því meðal annars sem formaður til margra ára. Það er óhætt að segja að félagið okkar væri ekki það sem það er í dag án tilkomu hans. Leiknisljónin senda allar sínar samúðarkveðjur á fjölskyldu og vini Ómars og vonumst til að sem flestir Leiknismenn fjölmenni á völlinn á föstudag til að votta honum virðingu sína...og horfa á boltann auðvitað!

 

Inkassódeild, 19.umferð

30.ágúst 18:00

Leiknisvelli, Nafla alheimsins

Veðurspá: 11°C, 3 metrar á sekúndu og léttskýjað. Fínasta "haustveður"


Skýrslan úr fyrri leiknum

Luka Kostic tekur við Haukum út tímabilið (25.ágúst)

Búi hættir sem þjálfari Hauka (24.ágúst)

Haukar fá liðsauka (júlí)


Andstæðingurinn-Haukar:

Strákarnir frá Blásvöllum hafa verið í nokkrum vandræðum með að ná sér í gang í allt sumar og eru nú komnir á sinn þriðja þjálfara í von um að ljúka mótinu með sæmd og halda sér í Inkasso-ástríðunni. Þeir eru sem stendur aðeins fyrir ofan Magnamenn í 10.sætinu á markamun svo það liggur mikið við að fá eitthvað út úr þessum leik gegn okkar mönnum. Haukar eru lélegasta lið deildarinnar í sumar á heimavelli en eru í 7. sætinu þegar kemur að því að sækja stiga á útivelli. Okkar menn eru hins vegar í 7. sæti í stigasöfnun á heimavelli, eitthvað sem við viljum sjá leiðrétt á föstudag og út tímabilið. Eins og áður segir er hinn mikli meistari Luka Kostic kominn á kreik til að setja stemninguna í gang og þeir eru því til alls vísir í þessum leik. Sýnd veiði en ekki gefin.


Völlurinn er sem betur fer ekki í þessu ástandi núna

Lykilleikmenn:

Sean De Silva #14 er aðalskorari gestanna en hann hefur ekki skorað í ágústmánuði og er líkast til hungraður í að leiðrétta það. Hann er kominn með 4 mörk í 14 leikjum. Hann kom þó af bekknum í síðasta leik og hvað veit maður um það sem Luka er að sjá á æfingum þessa vikuna. Aron Freyr Róbertsson #7 skoraði markið sem bjargaði stigi í síðasta leik gegn Aftureldingu og hann hefur verið umtalaður sem einn af betri mönnum liðsins á döpru sumri. Höfum hann í gjörgæslu takk. Svo hefur Birgir Magnús Birgisson #15 verið nokkuð öflugur í sumar, á miðjunni og í vörn þegar með þarf.


Fyrri viðureignir:

Í fyrri leiknum í sumar komu okkar menn til baka eftir að Haukar tóku forrystuna og sigldu leiknum á endanum nokkuð örugglega heim. Að þessari viðureign frátalinni eru gestirnir með vinninginn með 6 sigra gegn okkar 4 og 6 jafntefli í deild á síðustu 10 árum.


Bönn og meiðsli:

Í okkar röðum eru allir heilir, allavega líkamlega. Bjarki er óverðskuldað að taka út leikbann eftir ruglrautt á Akureyri um helgina síðustu en í sama leik fékk Ósvald sitt 4. gula spjald á tímabilinu og hann situr því líka hjá. Gyrðir leysir líklegast Bjarka af í miðverðinum við hlið Nacho og mögulega tekur Kristján Páll upp á því að taka vinstri bak með Hjalta í hægri bak. Þetta verður púsl og það er aldrei gott að hrófla mikið við vörninni. Sævar Atli hefur verið að ströggla með meiðsli uppá síðkastið en það heyrist ekki boffs um það úr herbúðum liðsins til að halda gömlum ref eins og Luka á tánum. Ég veit ekkert hvað er að gerast hjá Haukum en það er allaveg enginn þar í banni á föstudag.


Spáin:

Það er klárlega krafa af við vinnum strögglandi lið í okkar deild miðað við hvernig við höfum verið að spila í seinni umferðinni. Það væri sorglegt að harka og berjast eins og vitleysingar á Akureyri fyrir eitt stig og taka svo ekki þrjú heima og halda spennu í þessu. En eins og áður segir er blóðtaka í vörn okkar manna svo það gæti endað með því að Sólon og félagar í framlínunni þurfi að vera í nokkru stuði til að klára þetta. Við trúum því og veðjum á 3-1 skemmtisigur og áframhaldandi von um að geta jafnvel stolist upp en í það minnsta hafa áhrif á lokaniðurstöðuna.#ÁframLeiknir

#StoltBreiðholts

69 views0 comments

Recent Posts

See All