Upphitun: Grótta á útivelli

Updated: May 24, 2019

Á föstudagskvöld heyja okkar menn baráttu við nýliða Gróttu í 4.umferð Inkasso-ástríðunnar á Seltjarnarnesinu. Þetta er lykilleikur í að koma tímabili Leiknis á rétta braut.


 

Inkassódeild, 4.umferð

24.maí, 19:15

Vivaldi-völlur, Seltjarnarnesi

Veðurspá: Logn, léttskýjað og 10°C


P.S. ef marka má leik kvennaliða félaganna um daginn á þessum velli þá verða okkar menn í varabúningunum ægifögru.


Nú er komið að því gott fólk. Að endurræsa stigasöfnunina og létta aðeins áhyggjurnar af framhaldinu. Það dylst engum að tap á heimavelli gegn Njarðvík í síðustu viku voru mikil vonbrigði og ef allt fer á versta veg gætum við verið í 10.sæti deildarinnar í lok umferðarinnar. Til mikils að vinna.Gróttuliðið hefur fengið mikið hrós fyrir það hvernig þeir nálgast mótið og skilst mér að hópurinn sé byggður upp á ungum leikmönnum sem þurfa að sanna sig og enginn fái greitt fyrir að spila fyrir félagið. Pælingin sé að menn sanni sig þarna og komist á mála hjá stærri félögum með meira fjármagn í framhaldinu. Fyrirkomulag sem minnir um margt á mini-Dortmund.


Gróttumenn töpuðu fyrir Víkingum á Ólafsvíkurvelli í fyrstu umferð 2-0 en náðu sér svo í jafntefli gegn Þrótturum 2-2 og svo gerðu þeir sér lítið fyrir síðustu helgi og tóku 3 stig með sér heim frá Akureyri gegn Þórsurum í 2-3 sigri. Það er því stígandi í leik þeirra og mikið sjálfstraust eftir fyrstu 3 umferðirnar. Hlutverk okkar manna er að kippa þeim niður á jörðina og taka völdin sjálfir. Grótta er sæti fyrir ofan okkar menn í því 7. eftir fyrstu 3 umferðirnar.


Axel Sigurðarson er markaskorari og #9 þeirra Seltirninganna með 3 mörk af þeim 5 sem liðið hefur skorað hingað til. Hann þarf að vera í gjörgæslu hjá varnarliði okkar. Hann spilaði fyrir ÍR í fyrra svo ef strákarnir gætu aðeins stigið á hann í leiðinni, væri það vel þegið ;)


Mögulegt byrjunarlið Leiknismanna

Í innliti á æfingu á miðvikudag var hópurinn okkar hress og kátur og ekki að sjá að menn væru að hengja haus eftir síðustu viku. Stefán Gísla var ekki mikið að leggja spilin á borðið varðandi taktíkina svo það gæti verið nokkuð um breytingar í hópnum og mögulega uppstillingunni á föstudagskvöld.


Að mínu mati væri sterkur leikur að stilla upp í hefðbundið 4-4-2 í stað þess kerfis sem hingað til hefur verið notað í byrjun leikja. Yfirburðirnir í seinni hálfleik gegn Njarðvík voru næg sönnun þess að það væri rétt ákvörðun. Miðjan var þéttari og menn náðu betri tökum á að byggja upp sóknir. En svo gæti verið að 4-2-3-1 kerfið sé bara um það bil að smella. Við treystum stjóranum áfram til að velja sitt lið og kerfi eftir bestu sannfæringu.


Ingólfur kemur aftur inn eftir bannið sitt í síðasta leik og hans verður mikil þörf gegn sínum gömlu félögum, þó það væri ekki nema bara fyrir föst leikatriði eins og hornin sem voru hræðilega nýtt í fjarveru hans.


Nú er bara um að gera að mæta hress og kát á Seltjarnarnesið og styðja okkar menn til sigurs. Það verða allavega mörk í þessu og mikil skemmtun.


#ÁframLeiknir

56 views0 comments

Recent Posts

See All