Upphitun: Fjölnir í heimsókn

Á fimmtudagskvöld mætir topplið Fjölnis í heimsókn á Leiknisvöll og það verður þrautinni þyngri að senda þá heim tómhenta.


 


Inkassódeild, 10.umferð

4.júlí, 19:15

Leiknisvöllur, Reykjavík

Veðurspá: Alskýjað, logn og 12°C


Leikskýrsla frá Bikarleiknum í vor

Spá .net í vor


Það er ekki ofsögum sagt að Fjölnismenn séu síðasti stóri bitinn sem okkar menn þurfa að sanna sig gegn. Þeir hafa farið vel af stað í deildinni og staðið undir væntingum með því að verma nú toppsæti deildarinnar. Síðustu helgi aflífuðu þeir Þórsara frá Akureyri með 4 mörkum í seinni hálfleik.


Leiknismenn mættu Fjölni á Gervigrasinu í apríl í Mjólkubikarnum og þrátt fyrir að jafnræði hafi verið með liðunum framan af, skinu gæði gestana í gegn eftir að Gyrðir skoraði fyrsta mark leiksins í seinni hálfleik og enduðu leikar 1-4 það kvöldið. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og það er engin ástæða til að vera smeykur við þennan leik.


Leiknismönnum hefur einmitt tekist best gegn þeim liðum sem spáð var góðu gengi að Þórsurum frátöldum. Það er þó ljóst að menn þurfa að vera vakandi á verðinum því Fjölnismenn geta hlaðið í nokkur mörk á stuttum tíma í leikjum sínum.


Andstæðingurinn: Fjölnir

Eins og áður segir, hafa Fjölnismenn farið vel af stað í deildinni og t.a.m. voru þeir með 4 menn í liði umferðarinnar síðustu helgi. Undirritaður skellti sér á völlinn í leiknum gegn Þór að kynna sér hvernig leikur liðsins hefur þróast síðan í Bikarleiknum í vor og hann hefur bara vaxið. Liðið er þétt til baka og erfitt að finna glufur hjá þeim. Þeir sækja hratt og reyna mikið að fara upp kantana með fyrirgjafir inn í teig. Það hefur verið veikur punktur hjá Leikni að hreinsa fyrirgjafir frá svo ef það er einhver augljós leið til að tapa leiknum er það líklega að láta gestina komast upp með slíkan leikstíl.Lykilleikmenn:

Albert Brynjar Ingason (#14) fór illa með okkar menn í vor og hefur haldið áfram að vera alger lykilmaður í liði Fjölnis og Rasmus Christiansen (#23) stýrir vörninni af yfirvegun. Guðmundur Karl Guðmundsson (#29) var einnig virkilega tilkomumikill gegn Þór og ef hann verður í stuði munu afturliggjandi miðjumenn Leiknis standa í stórræðum að halda honum niðri.


Fyrri leikir:

Liðin hafa lengi eldað grátt silfur sín á milli en síðustu 10 ár í öllum keppnum hafa Fjölnismenn mikla yfirburði með 16 sigrum gegn 3 frá okkar mönnum og 6 jafntefli. Ef aðeins er tekið til greina deildarleiki skánar það ekkert. 8 sigrar fyrir Fjölni en 1 fyrir Leikni og 1 jafntefli. Nú er mál að linni.


Bönn og meiðsli:

Hvorugt liðið er með leikmann í banni í þessum leik. Leiknismeginn eru allir klárir að spila nema mögulega Hjalti sem byrjar liklega ekki leikinn.


Spáin:

Það er allt gott og blessað að vera jákvæður og bjartsýnn og vonandi eru Siggi með strákana ofurpeppaða fyrir því að minna á sig í þessari óútreiknanlegu deild en það verður að viðurkennast að enginn Breiðhyltingur getur farið ósáttur af vellinum ef niðurstaðan er 1 stig á mann að þessu sinni. Það væri jafnframt fyrsta jafntefli liðsins í sumar. Hvernig væri það í krafti þess að "gefa öllum liðum leik"?


Við minnum auðvitað á að upphitun fyrir leikinn hefst 17:00 í félagsheimilinu. Burgers og bjór. Gerist ekki betra.


#ÁframLeiknir

#StoltBreiðholts

49 views0 comments

Recent Posts

See All