Upphitun: Ólafsvík á föstudagskvöldi

Það virðist vera heil eilífð frá því að við fengum að sjá strákana okkar svitna og berjast á vellinum. Þegar sparkað verður til leiks í Ólafsvík á föstudagskvöld verða það orðnir 10 dagar, sem er of mikið fyrir undirritaðann. Vonandi hafa strákarnir ekki misst dampinn og halda áfram að vera ósigrandi í rúman mánuð.


Erfitt að hafna sumarheimsókn í þessa dýrð

Inkassódeild, 16.umferð

9.ágúst 19:15

Ólafsvíkurvelli, Ólafsvík

Veðurspá: 8°C, heiðskírt og 7 metrar á sekúndu


Á síðasta degi maímánaðar komu Víkingar frá Ólafsvík á Leiknisvöll og töpuðu fyrir betra liði Leiknis sem hélt þann dag hreinum skyldi í fyrsta sinn í sumar og við héldum að okkar menn væru komnir með stöðugleikann sem við vorum að bíða eftir. Það var fölsk dögun en hér erum við, heilli umferð síðar, ósigraðir í 4 leikjum, með nýjan aðalþjálfara, í næstbesta formi deildarinnar (sé litið til síðustu 5 leikja) og kokrhraustari en andskotinn á leið út á Snæfellsnes að taka 3 stig aftur þó að heimamenn séu gífurlega erfiðir viðureignar þar.


Skýrslan frá síðasta leik

Jordi Vidal til Víkings (25.júlí)

Gummi Magg frá ÍBV til Víkings (28.júlí)

Ejub með 300 leiki við stjórnvölin (31.júlí)Andstæðingurinn: Víkingur Ó.

Síðast þegar liðin mættust voru Ólsarar að komast á smá siglingu og menn bjuggust allt eins við því að Ejub myndi taka nýsafnað lið sitt enn eina ferðina í Pepsi-baráttuna. Leiknismönnum tókst að kýla þá á jörðina í þessum leik og sitja þeir nú í 5. sæti, 2 stigum fyrir neðan okkar menn sem þýðir að heimasigur á föstudagskvöld tryggir þá fyrir ofan okkur. Ólsarar hafa verið í mestu vandræðum með að skora í sumar og koma inn í leikinn með næstfæst mörk skoruð í deildinni en eru hins vegar með bestu vörnina með aðeins 12 mörk á sig í heild. Þeir eru í 8. besta formi deildarinnar með aðeins 6 stig út úr síðustu 5 leikjum. Þeir hafa gert jafntefli í síðustu þremur leikjum svo þeir eru væntanlega komnir með ógeð á því eins og við :) Víkingar geta treyst á að það verður erfitt að skora á þá á föstudag því þeir hafa ekki fengið nema 2 mörk á sig í 7 heimaleikjum í sumar. Góðu fréttirnar fyrir okkur eru að Leiknir er með 3. besta útiliðið í sumar í Inkasso svo þetta verður heilmikill leikur á þessum fallega velli. Það er vert að taka það fram að þetta verður síðasti leikurinn sem spilast svona "seint" þar sem næstu kvöldleikir verða leiknir klukkan 18:00 og svo 17:00 þegar halla tekur degi enn fyrr. Við erum að hefja lokasprettinn gott fólk!


Lykilmenn Víkinga:

Harley Willard #11 skorar markið ef það kemur frá þeim. Hann er búinn að skora rétt tæplega þriðjung allra marka liðsins, eða 5 talsins.

Fyrirliðinn Emir Dokara #13 er, sem fyrr, kletturinn í vörninni þó hann hafi hálfpartinn verið hafður fyrir fífl á Leiknisvelli í vor. Hann verður líklega í hefndarhug á heimavelli.

Guðmundur Magnússon #9 kom í júlíglugganum frá ÍBV og hefur þegar byrjað að skora fyrir þá svo Gyrðir og Bjarki þurfa að fylgjast með honum líka. Sóknarmaðurinn Jordi Vidal #18 kom líka frá Spáni til að hjálpa Ejub þann 25.júlí. Hann hefur komið inná í báðum leikjunum síðan en ef til vill er hann nú orðinn fullfær um að klára leik. Hann verður mögulegt WildCard í þessum leik.


Fyrri leikir: Leiknismenn hafa nú yfirhöndina sé litið til deildarleikja síðustu 10 ára með 4 sigra gegn 3 þeirra Ólsara. 4 sinnum hafa liðin þurft að deila stigunum milli sín.


Bönn og meiðsli:

Emanuel Eli Keke hjá Víkingum er kominn í 7 gul og 2 rauð í sumar svo hann situr hjá á föstudag. Það er hægt að segja að okkar lið sé hálfvængbrotið á leið inn í þennan leik því Nacho verður frá í vörninni ásamt Sævari Atla og Stefáni Árna sem allir eru komnir í leikbann. Góðu fréttirnar eru að mögulega verður Ingólfur Sigurðsson kominn tilbúinn í slaginn í staðinn gegn sínum gömlu félögum. Aðrir ættu að vera heilir og klárir í slaginn okkar megin.


Spáin:

Miðað við að lykilleikmenn í liði Leiknis verða fjarverandi í þeim mæli sem raun ber vitni verður allavega áhugavert að sjá hvernig hinir bregðast við. Þetta er tækifæri fyrir Gyrði að stíga upp af afli í miðverðinum og líklega verður Vuk að vera uppá sitt besta til að hjálpa Sóloni að skora mörkin. Daði Bærings fer utan eftir þennan leik og vill örugglega fullkomna uppganginn sem hefur verið í leik hans undanfarið. Það væri gott dagsverk að flýja af Snæfellsnesi með 1 stig inn í helgina en 3 stig væru velkomin. 1-1 jafntefli er þó innan þolmarka og spáum við því hérmeð. 5 leikir án ósigurs og Bring On Þróttur í Breiðholti viku síðar með fullskipað lið.


Nú er um að gera að fjölmenna í alla tiltæka bíla og njóta fallegs sumarkvölds á einu stórbrotnasta vallarstæði landsins. Takið þó teppi eða úlpur með. Það er spáð undir tveggja stafa tölu þetta kvöld.


#ÁframLeiknir

#StoltBreiðholts43 views0 comments

Recent Posts

See All