Stuðningsmannakvöldið: "Allir klárir!"

Updated: Apr 29, 2019

Hinu árlega stuðningsmannakvöldi Leiknis, með kynningu á leikmönnum og "stefnuræðu" þjálfaranna, er lokið og nú eru aðeins 6 dagar í að Inkasso-deildin rennur af stað.

 

Allir með "LAZER" fókus fyrir átökin í sumar :)

Eins og í fyrstu umferð Pepsideildarinnar hefðu fleiri mátt leggja leið sína á völlinn okkar í gær en það skemmdi ekki stemninguna meðal þeirra sem mættu og aðalatriðið er auðvitað að hin raunverulegu Leiknisljón mæti grimm í stúkuna þegar virkilega þarf á að halda í sumar.


Gæji, þjálfari meistaraflokks kvenna, kynnti þær dömur sem mættar voru í hús stuttlega og fór aðeins yfir markmið liðsins í sumar. Það á aðallega að vera gaman að spila fótbolta en eins og hann og við vitum er fótbolti skemmtilegastur þegar honum fylgja mörk og stig svo það verður klárlega barátta í kvennaflokki í sumar.


Að þessu loknu voru leikmenn meistaraflokks karla kynntir til leiks með aðeins meiri látum en engu að síður hefðbundnum hætti. Aðeins vantaði Vuk Óskar í þeirra hóp á kynningunni. Að kynningu lokinni hélt Stefán Gísla þjálfari smá tölu og var hún á svipuðum línum og hann lagði í fyrsta hlaðvarpi okkar Leiknisljóna. Markmiðið er að gefa öllum leik og vera allt tímabilið í efri hluta deildarinnar þó að ekki sé tímabært að stefna beint upp í úrvalsdeild í sumar.


Stefán tók við misfyndnum spurningum úr sal en ein spurning sem stóð uppúr kom frá formanninum sjálfum sem vildi minna nýja þjálfarann á það að eitt af einkennum Leiknis í gegnum tíðina hafi verið að það sé erfitt og jafnvel leiðinlegt að koma og spila við okkur í hér í efra-Breiðholti. Að við höfum einstakt lag á því að gera andstæðingum okkar erfitt fyrir. Hann vildi vita hvort þetta væri ekki eitt af markmiðum sumarsins, að endurvekja þessa tilfinningu meðal andstæðinga (líklega í ljósi þess að heimavöllurinn var virkilega slakur hjá okkur í fyrra). Þjálfarinn svaraði því til að það þyrfti alltaf að vinna baráttuna, návígin osfrv áður en menn fara að spila fótbolta. En metnaðurinn lægi samt hærra en að skemma bara fyrir öðrum liðum. Hann vill að liðið spili flottan bolta og skapa aftur þá stemningu sem var innan og utan vallar hjá félaginu þegar það vann sig upp í Pepsideild. Hann var búsettur erlendis þá en hafði sérstaklega orð á því að hann hafi tekið eftir því útfyrir landsteinana hvers konar stemning hafi verið í gangi í kringum félagið þá.


Að þessu loknu var haldið áfram að hella í sig áfengi og svo var uppboð á pökkum sem var stýrt af Dodda Litla, aka LoveGuru. Hann þénaði dágóða slummu fyrir félagið og dustaði svo rykið af Kill Bill gallanum sínum og tók lagið í andyri Leiknishúss við mikla hrifningu viðstaddra. Hann er búinn að búa í Breiðholti í fjölda ára en viðurkenndi að hann hafi ekki verið nógu mikill Leiknismaður hingað til. Það létti þó yfir mannskapnum þegar hann viðurkenndi að hann hatar samt ÍR. Það er eitthvað.


En þá beinast augu okkar rakleiðis að fyrsta leik í Inkasso-ástríðunni næstkomandi laugardag. Tuðrunni verður sparkað af stað klukkan 16:00 en að sjálfsögðu ætla Leiknisljónin að mæta galvösk í Leiknishús heilum 2 klst fyrir leik og sötra bjór, rýna í byrjunarliðið og láta sér hlakka til átakanna. Ekki láta þig vanta þar.


Við minnum líka á að allir leikmenn Meistaraflokks eru nú komnir með prófíl á síðunni og því léttara en nokkru sinni fyrr að kynna sér drengina sem munu berjast undir merkjum Leiknis í sumar.

Við ætlum svo að taka upp viðhafnarútgáfu af Ljónavarpinu á miðvikudag þar sem við ræðum leikmannahópinn inn og út og fáum Örn Karlsson, Össa, í heimsókn til að svara öllum spurningum sem við gætum haft um það sem framundan er. Ef þú hefur einhverjar spurningar um leikmannahópinn eða annað sem við getum beint til Össa, skráðu þig þá hér á síðunni og hentu spurningunni fram í commenti hér að neðan.

#ÁframLeiknir

56 views0 comments

Recent Posts

See All