Upphitun og viðtöl fyrir Stjörnuna á Domusnovavelli

Silfurskeiðin hættir sér í ghettóið á mánudagskvöld í 13. umferð Pepsi-Maxdeildarinnar. Þetta er 2. leikur í 3ja heimaleikjahrinu og það væri stórt að taka öll stigin þar sem mótið fer að styttast í annan endann.


He´s Coming Home! Hlimar´s Coming Home!

Þeir sem fylgjast nokkuð með knattspyrnu á Íslandi þekkja Silfurskeiðina, langbestu stuðningsmannasveit landsins. Leiknisljónin sýndu tennurnar 2015 en það er ekki hægt að þræta fyrir það að Garðbæingar hafa haldið við stemningu kringum sína menn í mikið lengri tíma og það ber að lofa. Við vonumst því innilega til að geta skálað við þeirra menn á Álfinum og átt góða baráttu í stúkunni á meðan leikmenn sjá um að útkljá málin á grasinu góða. Smelltu hér fyrir neðan til að sjá viðtalið við Bjarka og Sigga á æfingunni í dag.


Stjarnan hingað til í sumar

Stjarnan byrjaði tímabilið, sælla minninga, á að gera markalaust jafntefli við okkar menn á Samsung vellinum. Eftir það sagði Rúnar Páll, kóngurinn í Garðabæ, starfi sínu lausu og félagið fór í einhvers konar krísufasa meðan Þovaldur Örlygsson náði að kippa almennilega í spottana. Þeir hafa rétt úr kútnum núna og eru búnir að uppskera 10 stig í síðustu 5 leikjum eftir að hafa byrjað tímabilið á aðeins 3 stigum úr fyrstu 7 leikjunum. Allir raddir um að þeir geti mögulega fallið eru löngu þagnaðar og þó þeir geti afskrifað afrek á hinum enda tölfunnar er ekki hægt að vanmeta þetta lið enda mun Breiðholts-Messíinn okkar Hilmar Árni Halldórsson reyna að hefna fyrir "níðsöngvana" sem dundu á honum í fyrsta leik tímabilsins. Ef okkur skjátlast ekki verður þetta í fyrsta sinn á ævinni sem hann spilar í treyju annarri en Leiknisröndunum á grasinu á Domusnovavellinum. Stjarnan er í 6. sæti deildarinnar þegar aðeins eru teknir útileikir í reikninginn.


Liðin eru á svipuðum stað en væntingarnar misjafnar

Hilmar Árni er okkar maður í bláu þessa dagana en tvíburarnir Dagur og Máni ásamt Aroni Inga eru þeir einu í okkar hópi sem hafa verið kenndir við unglingastarf Garðbæinganna á einhverjum tímapunkti. Þjálfarasagan er þó nokkuð samtvinnuð því Siggi var þar við störf í einhvern tíma auk þess sem Davíð Snorri stoppaði hjá Stjörnunni áður en hann tók stolt sitt til KSÍ. Líklegt verður að teljast að þessi samlegð hefur haft einhver áhrif á það að yngri flokkar Leiknis hafa verið að fá yfir nokkra öfluga liðsmenn úr Garðabæ. Þar nægir að nefna Bjarka Arnaldar, Jón Hrafn sem verja og skora mörkin fyrir 2. flokk.


Okkar menn standa aðeins Blikum að baki hvað varðar árangur á heimavelli í deildinni. Látið það sökkva inn. Domusnovavöllurinn hefur alls ekki verið neitt vígi síðustu ár og jafnvel þvert á móti hefur gengið betur í fallega útibúningnum síðustu ár en við værum bara í hreinni baráttu um Evrópusæti ef við fengjum að spila alla leiki heima. Það er aðeins tapið gegn KR sem heldur okkur frá fullu húsi.


Meiðsli og leikbönn

Í röðum okkar manna eru allir heilir heilsu nema Ágúst Leó sem er frá til langs tíma og óvíst hvort hann nái að reima skóna aftur í sumar, því miður. Sólon er farinn að æfa af krafti og gæti vermt tréverkið í þessum leik og komið eitthvað við sögu. Það eru gleðitíðindi enda sýndi hann í fyrri leiknum gegn Stjörnunni að hann getur hæglega gert sig líklegan og í það minnsta tekið heilmikið til sín. Að fá hann aftur eftir svona löng meiðsli er eins og að hafa gert geggjuð kaup í glugganum. Danni Finns nældi sér í pirringspjald í leiknum gegn ÍA og var það hans fjórða í sumar. Hann fær því að beit röddinni í stúkunni frekar en vinstri löppinni eitruðu á vellinum á mánudagskvöld. Ljúflingurinn og aðstoðarþjálfarinn Hlynur Helgi hafði víst eitthvað hátt þegar Ósi var hakkaður niður á hliðarlínunni gegn ÍA og leit rautt fyrir. Hann fær því líka að dúsa í stúkunni með okkur. Einhver að koma með aukaregnhlíf fyrir hann ef með þarf, takk. Sparkað verður af stað klukkan 19:15. Það verður sötrað og kyrjað á Álfinum okkar frá 17:00 þar sem Soffía og hennar teymi gera vel við Leiknisfólk áður en haldið er í burger og kannski einn lokabjór í Klúbbhúsinu að Austurbergi 1 fyrir kickoff. Við sjáumst á vellinum kæra Leiknisfólk.

#StoltBreiðholts

#HverfiðKallar


77 views0 comments

Recent Posts

See All