Stefán Gísla hættur hjá Leikni

Þær stóru fréttir bárust fyrir um klukkustund úr herbúðum Leiknis að Stefán Gíslason hefur látið af störfum sem aðalþjálfari meistarflokks karla.


 

Það virðist erfiðleikum háð að ná stöðugleika í 111

Á heimasíðu félagsins birti stjórn félagsins yfirlýsingu þessa efnis. Stefán lætur af störfum tafarlaust til að taka að sér annað þjálfunarstarf í Belgíu. Ekki kemur fram hvort það sé sem aðalþjálfari en ljóst þykir að ekki hafi verið hægt að standa í vegi fyrir honum þegar þetta tækifæri kom upp. Ekki kom heldur fram hvernig tækifærið kom upp þó gefið sé í skyn að einhvern veginn hafi verið tekið eftir störfum þjálfarans í Breiðholti.


Sigurður Heiðar Höskuldsson tekur við stöðu aðalþjálfara meistaraflokks núna og er sú ráðning ekki tímabundinn heldur hefst nú leitin að nýjum aðstoðarþjálfara til að leysa hans gömlu stöðu af.


Stefán Gíslason stoppaði því stutt í Breiðholtinu og var í raun ekki búinn að finna sitt sterkasta lið eða uppstillingu. Í Inkasso vann hann 4 leiki og tapaði 4, tapaði fyrsta Mjólkubikarleiknum og það þarf ekki að fjölyrða um árangur í Lengjubikar eða Reykjavíkurmótinu en síðastliðinn vetur var yfirlýst notaður til að spila liðið saman en ekki endilega til að vinna leiki.


Það er því erfitt að segja að Stefán hafi slegið í gegn en hann hafði klárlega virðingu leikmanna, stjórnar og stuðningsmanna og því bagalegt að félagið þurfi enn og aftur að standa í svona stórum breytingum á miðju tímabili. Ráðningin á Sigurði ætti þó að gefa til kynna að félagið vilji halda áfram á þeirri vegferð sem Stefán var kominn á með hópinn og félagið.


Yfirlýsing félagsins í heild sinni:

"Hlutirnir breytast fljótt í boltanum. Stefán Gíslason hefur látið af störfum sem þjálfari Leiknis til að taka við þjálfarastarfi í Belgíu.
Það er eftirsjá af Stefáni sem tók við Leikni síðasta vetur en hugmyndafræði hans og félagsins lágu virkilega vel saman. Það er leiðinlegt að horfa á eftir þessum flotta þjálfara og honum er þakkað fyrir afar góð störf fyrir félagið og óskað velfarnaðar í nýju og spennandi verkefni.
Að sama skapi fagnar Leiknir því að erlend félög séu að horfa hingað upp í Breiðholtið, enda ansi margt gott sem héðan kemur! Það er ekki oft sem íslenskum þjálfurum býðst tækifæri sem þetta.
Sigurður Heiðar Höskuldsson, sem verið hefur aðstoðarþjálfari Stefáns, tekur nú við keflinu og stöðu aðalþjálfara. Áfram verður haldið í sömu vegferð. Valur Gunnarsson markvarðaþjálfari verður honum til aðstoðar í leiknum gegn Keflavík á morgun en verið er að vinna í að fá inn nýjan aðstoðarþjálfara.
Áfram Leiknir!"
35 views0 comments

Recent Posts

See All