Stór sigur á Suðurnesjum

Strákarnir okkar tóku öll þrjú stigin gegn sterku Keflavíkurliði á útivelli í miklum skúrum í kvöld. 1-3 sigur í fyrsta leik Sigurðar Heiðars sem aðalþjálfara.


 

Byrjunarlið kvöldsins. Stöðugleiki að koma á sama tíma og þjálfaramál flæktust?

Keflavík 1 - 3 LEIKNIR

0-1 Vuk Oskar Dimitrijevic ('47) 0-2 Sævar Atli Magnússon ('53) 1-2 Adolf Mtasingwa Bitegeko ('61) 1-3 Sólon Breki Leifsson ('65)

Áhorfendur: 315Þetta var virkilega gaman! Svo einfalt er það. Það þyngdi verulega yfir á Reykjanesbrautinni og eins og við var búist var þetta rigningarleikur sem hefur ugglaust verið erfitt að spila en okkar menn mættu einbeittir og með kassann út eftir sviptingar síðustu sólarhringa og tóku heimamenn í bólinu.


Skýrslan á .net

Skýrslan á KSÍ

Viðtal við Sigurð eftir leik

Viðtal við þjálfara KEF eftir leik

Leikurinn allur á YouTube rás Keflavík TV

MyStory á Instagram Ljónavarpsins


Okkar menn mættu suður með sjó með varabúningana fjarskafögru í farangrinum, tilbúnir í fyrsta leik Sigurðs Heiðars sem aðalþjálfara gegn hörkuliði sem er til alls líklegt í deildinni. Eitthvað hafði dómari leiksins þó að athuga við litavalið á sokkunum og mættu strákarnir því til leiks í rauðum lánssokkum frá heimamönnum sem ekki var hægt að rugla við sokka þeirra. Af því að feitu hvítu, vínrauðu og bláu rendurnar á treyjunum voru ekki nóg til að þekkja liðin í sundur.


Byrjunarlið Leiknis var keimlíkt því sem Stebbi Gísla tefldi fram í sigurleik fyrir viku en Hjalti vék fyrir Kristjáni Pál í hægri bak og Viktor Marel fyrir Sóloni í framlínunni. Uppstillingin var svipuð með enga kantmenn og Gyrði í djúpliggjandi miðjumanninum. Sterkt lið sem í ljósi úrslitana gæti farið að verða normið.


10 stig fyrir að finna þrjá byrjunarliðsmenn í kvöld á þessari 100 ára gömlu mynd

Við stuðningsmenn þökkum heimamönnum fyrir að hafa fjárfest í yfirbyggðri stúku á sínum tíma því það gerði úrhellisrigningu þegar leikurinn var að slíta barnskónum og leikmenn þurftu að finna fjölina sína við erfiðar aðstæður. Það var þó alveg tært frá fyrsta sparki að okkar menn voru mættir til að sækja stig. Eins og varnarleikurinn hefur verið að spilast er ljóst að Leiknir mun líklega aldrei mæta til leiks í sumar að vonast eftir markalausu jafntefli eða liggja til baka og vona það besta. Sókn er okkar besta vörn og það er líka stórskemmtileg nálgun fyrir okkur sem fylgjumst með í stúkunni.


Menn mættu heimamönnum ofarlega á vellinum og af festu sem þeir kunnu illa við allan leikinn. Manni dettur helst í hug að þeir hafi gert ráð fyrir að okkar menn myndu mæta með það í huga að verjast og láta KEF um að hafa frumkvæðið en það fór ekki svo. Að venju var fullt af mistökum í leik beggja liða og erfitt að staðsetja boltann af öryggi við þessar aðstæður en allan fyrri hálfleikinn voru okkar menn öruggari á boltanum á meðan Keflvíkingar virtust mestmegnis ætla að reiða sig á hraða sóknartakta til að koma vörn okkar að óvöru. Flest skot Keflvíkinga voru langt utan af velli í von um að bleytan og einbeitingaleysi í markinu myndi skila þeim marki. Það hefði þurft að fjárfesta í töluvert mikið fleiri svoleiðis happdrættismiðum til að landa stigunum þremur gegn einbeittum Breiðhyltingum í kvöld.Á sama tíma var gaman að sjá lið Leiknis sækja skipulega og loksins sá maður nokkrar fyrirgjafir af gamla skólanum ógna marki heimamanna. Það voru alveg tilfelli þar sem heimamenn náðu boltum inn í teig en okkar menn voru aldrei sofandi fyrir hættunni og vildu einfaldlega meira hreinsa frá en hinir bláklæddu virtust vilja stigin. Það var ekkert gefins frá gestunum í kvöld sem við verðum að hrósa strákunum fyrir. Það er mikilvægt skref í rétta átt í leik liðsins. Leikar í hálfleik voru 0-0 og ekkert svakalega mikið til að ræða um nema það að menn hafa ekki alltaf komið ferskir úr búningsklefanum í þeirri stöðu síðustu vikur. Ekki laust við skjálfta í stúkunni þar af leiðandi.


Þær áhyggjur voru óþarfar. Okkar menn mættu ákveðnir aftur til leiks og héldu uppteknum hætti nema í þetta sinn byrjuðu þeir að klára alls konar færi sem þeim buðust. Fyrsta markið kom frá Vuk eftir mínútu leik í seinni hálfleik. Danni Finns tók hornspyrnu sem var hálfhreinsuð út úr teignum þar sem Vuk beið og þrykkti í boltann. Hann virtist fara af öðrum Leiknismanni við marklínuna og upp í slá og inn en hver sem þar var hætti sínu fagni um leið og Vuk renndi sér á hnjánum með allt liðið í fanginu. Stórglæsileg byrjun á seinni hálfleik.


En eitt mark er ekki mikið þegar þú ert Leiknir, er það nokkuð? Það eru ekki til nógu margir puttar og tær í heiminum til að telja upp hversu oft maður hefur séð liðið sitt setja fyrsta markið og gefa svo allt frumkvæði, og á endanum leikinn, frá sér. Miskunarlega gerðist það ekki í dag og hefur í raun ekki gerst í sumar þegar liðið tekur forrystuna. Maður sér þá ekki bakka og hætta að tala saman. Menn létu áfram finna fyrir sér og vissu sem var að leikurinn var ekki unninn á 47.mínútu.


Það var svo á 55. mínútu sem Eyjó sparkaði boltanum fram, Sólon vann skallaeinvígi við Keflvíking á miðjum þeirra vallarhelmingi og boltinn skoppaði fyrir fætur Ísaks Óla fyrirliða Keflavíkinga og framhjá honum. Hann missti hreinlega af boltanum. Er þá einhver betri en Sævar Atli Magnússon til að vera mættur á núlleinni og refsa þér miskunarlaust með því að setja´nn framhjá markverðinum stöngin inn? Svarið er NEI með stórum stöfum. 0-2 og við farnir að horfa fram á gleðilega ferð heim í Breiðholtið.


En 0-2 og meira en hálftími eftir. Er það ekki týpísk bananahýði fyrir Leikni? Ekki í dag og ekki í sumar. Það breyttist ekkert í leik Leiknis. Menn héldu áfram að sækja og tala saman og gera mistök og bæta upp fyrir þau með mikilli vinnslu. Þetta var virkilega gaman á að horfa.


Keflvíkingar fengu markið sitt uppúr einfaldri fyrirgjöf frá hægri kantinum. Heimamaður skallaði boltann illa og fór hann þaðan af höfði Leiknismanns í teignum og boltinn í átt að marki fyrir Eyjó sem varði hann en gat ekki gripið vegna bleytunnar og Bitegeko mætti á svæðið til að slútta í netið. Ekkert svakalega mikið hægt að kvarta yfir þessu enda þá kominn tími til að naga neglur með engann tveggja marka mun að róa mann.


Aftur. Óþarfa áhyggjur. Okkar menn leystu allt sem heimamenn hentu á þá, héldu ró sinni og auðvitað mætti Sólon 4 mínútum eftir að Keflvíkingar kveiktu von, tók við boltanum á sama stað og hann hafði skallað hann áfram í marki Sævars, tölti með varnarmann á bakinu, bauð öðrum í dans og þegar hann var búinn að skokka inn í teig og hundsa beiðnir Vuk og Sævars um að send´ann.....klobbaði markvörðinn háværa á einstaklega hortugan hátt. Hvar fundum við þennan mann? Þvílíkur snillingur!Síðustu 30 mínúturnar voru nokkuð náðugar í stúkunni og Sigurður gerði skiptingar á góðum tímum, að því er virtist, að mestu til að fá bara ferskari lappir inn í áframhaldandi vinnslu og það bar allt góðan árangur. Heimamenn héldu áfram að pirra sig og sköpuðu í raun aldrei neina raunverulega hættu í teig Leiknis.


Risastór sigur gegn öðru sterku liði í deildinni sem nú er hægt að miða sig við. Það er núll ástæða til að bera óttablandna virðingu fyrir nokkru liði í þessari deild.


Hnetuskel:

Frábært að taka 3 stig á útivelli gegn Keflavík sem eiga að vera á svipuðu róli og Leiknir stefnir á í deildinni. Aðstæður erfiðar og auðvitað þjálfaraskipti í gær sem hefðu klárlega getað dempað stemninguna en menn mættu einbeittir sem aldrei fyrr og öll holning á liðinu var betri en maður hefur séð í sumar hingað til. Þessi sigur var verðskuldaður og skópst ekki bara á mörkum heldur á samheldnum varnarleik alls staðar á vellinum.

Leiknismaður Leiksins: Sævar Atli:

Það er mjög erfitt að sigta einn út í þessum leik. Það voru allir mjög góðir í kvöld og .net valdi t.d. Vuk og Sólon til að taka út fyrir heildina. Það er ekkert við það að athuga. Ég vel Sævar Atla af því að af honum stóð ógn allan leikinn og í fyrri hálfleik var hann að halda mönnum í bakinu og biðja um boltann við teiginn. Hann bjó til hættulegar aðstæður fyrir andstæðinginn uppúr engu með því að beita fullorðinsvöðvunum sínum og vera graður í boltann og færin. Hann var eiginlega sami dólgur og Sólon er inn í teig, utan hans, til að skapa pláss og létta á miðjunni. Hann er orðinn fullorðinn fótboltamaður og erfitt að sjá að hann hefði getað beitt líkamanum svona í fyrra eða hitteðafyrra. Ekki skemmir fyrir að hann skoraði smekklegt mark með því að vera vakandi og þegar á þurfti að halda var hann mættur um allan völl að narta í lappir andstæðingana og henda sér fyrir bolta. Gulldrengurinn er svoldið farinn að draga vagninn.


Aðrir Ferskir:

Allir!

Vuk var mjög flottur framávið og skellti sér í eitt mark í viðbót. Hann var Keflvíkingum erfiður í kvöld og Sigurður þarf ekkert að hugsa sig tvisvar um áður en hann velur hann í byrjunarliðið í næsta leik.

Sólon með stoðsendingu og mark og að venju sterkur í að halda vörninni við efnið. Hann klárar ekki 90 mínútur enn eina ferðina sem bendir til þess að hann sé ekki alveg heill en hann er ekkert að spara sig þegar hann er á vaktinni. Alltaf aðdáunarvert að sjá. Svo er hann víst búinn að finna sér lífsförunaut Hún sagði víst "já" um síðustu helgi. Spurning hvort Helgi framkvæmdastjóri þurfi ekki að henda í einhvern 5 ára samning á kauða og sjá hvort hann segi ekki "já" til baka við okkur.

Gyrðir hélt áfram að ganga í augun á undirrituðum í stöðu djúpliggjandi miðjumanns. Hann kom virkilega vel út í þessum leik sem skemmileggjari og var alltaf að loka svæðum, narta í hælana á heimamönnum og vera þessi skíthæll sem gerir það að verkum að heimamenn voru á stórum köflum engan veginn að nenna þessum Breiðhyltingum. Hann var sterkur í skallaeinvígum og er smátt og smátt farinn að skipa mönnum í stöður á miðjunni. Hlutverk hans og þroski í liðinu er 100% á réttri leið og við gætum verið að horfa uppá nokkuð ómissandi lykilmann í liðinu áður en tímabilið klárast.

Danni Finns er í byrjunarliði annan leikinn í röð og það er klár stígandi í hans leik. Hann átti góðar sendingar og var vandanum vaxinn í baráttunni hverju sinni. Maður hefði haldið að hann myndi missa sætið fyrir frískan Ingó en Danni hefur traustið og þarf að missa það til að missa sætið virðist vera.

Nacho kom aftur í byrjunarliðið og það hafði klárlega róandi áhrif á varnarleikinn. Hann var fljótur að útrýma marktækifærum andstæðinganna og já, róaði bara spil liðsins þegar á þurfti að halda. Velkominn aftur!


Hvað má betur fara?

Það er ekki hægt að taka neitt út í þessum leik sem hægt er að kortleggja sem ákveðinn veikleiki í liðinu. Ekki allavega amatör eins og ég. Markið var bara bland í poka slys og aðstæður á vellinum að stríða okkur. Ekkert við því að gera. Menn létu ekki deigan síga og skoruðu mörkin sín. Flott barátta alls staðar, þéttur varnarleikur og yfirvegun.


Hvað nú?

Nú er spurning hvort menn þurfi ekki að ná sér niður á jörðina. Eftir góð fagnaðarlæti í kvöld auðvitað. Sigurður þarf að stilla liðið af fyrir Fjölni á Leiknisvelli að viku liðinni. Fjölnismenn mæta Þórsurum á laugardag á Akureyri og ef þeir vinna þann leik verða þeir toppliðið í Inkasso þegar við mætum þeim. Fjölnismenn flengdu okkur í bikarnum í vor eftir að liðin höfðu verið jöfn fyrstu 60 mínúturnar á gervigrasinu okkar en það er allt annað Leiknislið sem mætir nú til leiks og eins og áður segir, er alger óþarfi að mæta með einhverja sérstaka virðingu fyrir þeim til leiks. Út með kassann, tala saman og...

#ÁframLeiknir

#StoltBreiðholts136 views0 comments