Samningamál

Updated: Sep 16, 2019


Nú eru aðeins 90 mínútur eftir af knattspyrnutímabilinu okkar og ljóst að næsta sumar verður karlaliðið okkar annað hvort að spila í Pepsi Max deildinni eða að hefja leik í Inkasso með þær væntingar frá stuðningsmönnum að það verði gerð (önnur) alvöru atlaga að því að fara upp í Pepsi Max. Það verður ekkert hægt að fela sig á bak við gefum öllum leik frasann næsta sumar ef liðið verður enn í Inkasso. Það sem þetta lið hefur sýnt okkur í sumar er einfaldlega það öflugt að það á ekkert minna skilið.


En áður en við förum alla leið þangað þá er auðvitað eftir einn leikur af þessu tímabili. Og gríðarlega margt sem getur enn gerst. Það er ljóst að Leiknir lendir annað hvort í 2. eða 3. sæti deildarinnar. Frábært! Það er alveg ljóst að Leiknir þarf að byggja ofan á þennan árangur. Þá datt mér í hug að skoða stöðuna á samningamálum í þessum flotta Leiknishópi.


Þetta er þokkalegt magn af texta, þótt aðeins sé stiklað á stóru um hvern leikmann. Fyrir þau ykkar sem viljið hafa þetta snöggsoðið þá set ég TL;DR kafla neðst með grunnupplýsingum um hvaða samningar renna út hvenær.


Sigurður Heiðar Höskuldsson

Hinn ljónharði og skemmtilegi þjálfari liðsins steig upp þegar Stefán Gíslason hvarf á braut á miðju sumri. Eins og fram kom í mjög áhugaverðu spjalli við Sigga í Ljónavarpinu þá var það alltaf hugmyndin að hann myndi á einhverjum tímapunkti taka við liðinu. Það gerðist bara fyrr en menn áttu von á. Ekki grátum við það mikið, Siggi er greinilega toppþjálfari og hefur sett sitt mark á liðið með frábærum hætti. Hann skrifaði fyrr í sumar undir samning sem gildir út árið 2020. Frábært að vita af því þótt vissulega hafi Leiknir aldrei verið félag sem stendur í vegi fyrir því þegar menn vilja grípa góð tækifæri annars staðar. Það kæmi manni lítið á óvart ef önnur félög væru áhugasöm um að fá Sigga til sín en við vonum að hann vilji halda áfram með þetta verkefni í Breiðholtinu.


Þá að leikmönnunum. Hópurinn hefur verið mjög flottur á þessu tímabili, margir leikmenn stigið inn þegar á hefur þurft að halda og það yfirleitt með prýðis árangri. Hér er samantekt á leikmönnunum og samningastöðu þeirra miðað við heimasíðu KSÍ. Ef það eru villur í þeim upplýsingum þá þætti okkur vænt um að fá þær leiðréttar.


Eyjólfur Tómasson

Þessi öflugi markvörður er einn sá allra besti í Inkassodeildinni og jafnvel þótt víðar væri leitað. Hann hefur spilað alla leiki Leiknis í sumar og verið stöðugur og flottur í þeim, sérstaklega á seinni stigum mótsins. Hann skrifaði fyrst undir samning við Leikni árið 2006 og nú síðast í október 2017. Þá skrifaði hann undir samning sem gildir út árið 2019. Ekki nema þrítugur, sem er enginn aldur fyrir markmann, hann á nóg eftir.

Sólon Breki Leifsson

Hann og Eyjó eru einu tveir leikmennirnir sem hafa tekið þátt í öllum deildarleikjum Leiknis á tímabilinu. Hann er markahæsti leikmaður liðsins með 8 mörk og hefur samtals skorað 19 mörk í 39 leikjum síðan hann kom til Leiknis. Hann skrifaði fyrst undir saming við Leikni í febrúar 2018. Sá samningur átti að gilda út árið 2019 en í febrúar á þessu ári skrifaði hann undir framlengdan samning sem gildir út árið 2021. Við erum því í toppmálum þegar kemur að þessum flotta markahróki og leikmanni síðasta tímabils.

Gyrðir Hrafn Guðbrandsson

Gyrðir hefur ekki verið lengi hjá Leikni en er strax að stimpla sig inn sem lykilmaður og það er ekki að sjá á honum að þetta sé hans fyrsta alvöru tímabil sem meistaraflokksleikmaður. Hann skrifaði undir samning við Leikni í desember og varð svo tvítugur í lok mars á þessu ári. Samningurinn sem hann skrifaði undir gildir út árið 2020 svo við erum góð í bili hvað hans þátttöku í næstu verkefnum Leiknis varðar. Hann hefur aðeins misst af einum deildarleik hjá Leikni á þessu tímabili og þá grúttapaði liðið fyrir Þrótti. Gyrðir hefur líka verið glettilega iðinn við markaskorun, sérstaklega fyrir leikmann sem spilar ýmist sem aftasti maður á miðju eða í miðverði. Hann hefur samtals skorað 5 mörk í sumar, 4 í deild og 1 í bikarnum. Í deildinni er hann t.d. með jafnmörg mörk og bæði Vuk og Stefán Árni.

Vuk Oskar Dimitrijevic

Talandi um Vuk, hann hefur átt fínt tímabil þetta sumarið. Ef við ætlum að vera verulega kröfuhörð þá má svosem alveg segja að hann eigi slatta inni ennþá en hann hefur allavega fengið gott svigrúm til að vaxa sem leikmaður og hefur sýnt meiri stöðugleika í sumar en til dæmis síðasta sumar. Ef við gerum ráð fyrir að lánsmennirnir okkar frá KR kveðji okkur eftir þetta tímabil þá verður Vuk enn mikilvægari leikmaður í þessu liði og það er trú okkar ljónanna að hann geti vel staðið undir því hlutverki. Hann er ekki nema 18 ára gamall en samt höfum við heyrt útundan okkur lengi að stuðingsmenn annarra liða horfi til hans löngunaraugum. Við viljum endilega halda honum. Núverandi samningur, sem hann skrifaði undir í nóvember 2017, gildir út árið 2020. Hann hefur tekið þátt í 19 deildarleikjum af 21 á þessu tímabili og við reiknum með að hann komi eitthvað við sögu í lokaleiknum líka.

Sævar Atli Magnússon

Þrátt fyrir að vera fæddur árið 2000 erum við flest löngu hætt að hugsa um Sævar Atla sem ungan og efnilegan, hann er vissulega ungur en hann er orðinn algjör reynslubolti í þessu liði og mikilvægi hans verður alltaf meira. Hann hefur líka sýnt á þessu tímabili að hann hefur fullorðnast mikið, er orðinn miklu sterkari leikmaður á öllum sviðum. Hann hefur aðeins verið að glíma við meiðsli í sumar en samt sem áður tekið þátt í 19 deildarleikjum og skorað í þeim 7 mörk. Við vitum af því að mörg Pepsideildarlið væru til í að fá hann til sín en vonandi vill hann frekar taka þátt í því verkefni að spila í Pepsi Max með Leikni. Hann skrifaði undir nýjan samning í október á síðasta ári og sá samningur gildir út árið 2020.

Ósvald Jarl Traustason

Ósi hefur verið stabíll og flottur í sumar. Einn af þessum leikmönnum sem á aldrei dapra vakt og skilar alltaf sínu. Hann spilaði sína fyrstu leiki fyrir Leikni sumarið 2013 þegar hann kom að láni frá Breiðablik. Hann prófaði svo að spila með Fram og Gróttu áður en hann kom aftur til Leiknis árið 2017. Í október á síðasta ári skrifaði hann undir samning sem gildir út 2020.

Bjarki Aðalsteinsson

Bjarki Aðalsteinsson hefur verið klettur í vörninni hjá okkur frá því hann kom til liðsins árið 2017. Hann hefur myndað flott miðvarðapar með Nacho og þeirra samvinna hefur orðið sterkari og öflugri eftir því sem líður á tímabilið. Bjarki hefur spilað 19 deildarleiki í sumar. Þeir ættu náttúrulega að vera fleiri ef einhver pípari frá Akureyri hefði ekki tekið einhverja gölnustu dómaraákvörðun sumarsins og hent rauðu á kallinn. Bjarki hefur ekki enn náð að skora fyrir Leikni, þrátt fyrir einlæga trú nokkurra ljóna á að það sé alveg að fara að koma. Við treystum á að hann skori bara í lokaleik sumarsins, þá verður sko fagnað! Bjarki skrifaði undir nýjan samning í lok 2018 sem gildir út árið 2020.

Ígnacio Heras Anglada

Nacho okkar kom nokkuð óvænt inn í liðið í vor en hvílík himnasending sem þessi viðkunnanlegi Spánverji hefur reynst. Frábær varnarmaður, frábær karakter og afskaplega flott viðbót í þennan hóp. Hann er kominn með 3 mörk í deildinni í sumar og þau væru fleiri ef það væri ekki ranglega búið að taka af allavega eitt mark. Hann var valinn leikmaður umferðarinnar á .net eftir frábæran sigur á hans gömlu samherjum frá Ólafsvík. Nacho hefur líka reynslu af því að spila í efstu deild, sem kemur sér vel fyrir okkur í Operation Pepsi Max. Hann skrifaði í vor undir samning sem gildir út þetta ár.

Kristján Páll Jónsson

Stjáni og Eyjó eru aðalreynsluboltarnir í liðinu, leikmennirnir sem berjast um að eiga leikjametið fyrir Leikni. Stjáni hefur ekki verið alveg sami fastamaðurinn í liðinu og Eyjó en engu að síður spilað flesta leiki liðsins á sumrinu, hann hefur tekið þátt í 18 deildarleikjum af 21 til þessa. Kristján Páll hélt upp á 31 árs afmælisdaginn sinn með því að eiga flottan leik gegn Fjölni. Hann skrifaði undir samning í október sl. og sá samningur gildir út þetta ár. Hann á nóg eftir ennþá.

Ernir Bjarnason

Ernir Bjarna, eða Vélin eins og við köllum hann, hefur sannað sig á þessu tímabili og því síðasta sem algjör lykilleikmaður í hjarta miðjunnar. Hann gefur tóninn í baráttu liðsins, brýtur sóknarleik andstæðingsins á bak aftur og startar okkar eigin sóknum. Þrátt fyrir að vera hvorki sá hávaxnasti né sterlegasti í útliti þá er hann risi af leikmanni með mikla yfirferð og yfirsýn. Það finnst engum leikmanni skemmtilegt að spila gegn Vélinni, það er á hreinu. Ernir hefur spilað 18 leiki í deildinni í sumar og samningurinn sem hann skrifaði undir þegar hann kom til liðsins eftir tímabilið 2017 rennur út nú í lok árs. Það voru miklar gleðifréttir þegar hann staðfesti í Ljónavarpinu að hann væri byrjaður að ræða við félagið um framhald, nú þarf bara að negla það niður sem fyrst. Langtímasamning á Vélina!

Árni Elvar Árnason

Árni Elvar hefur tekið þátt í 14 leikjum með Leikni í sumar. Þeir væru sjálfsagt enn fleiri ef Árni Elvar hefði ekki verið að jafna sig af erfiðum meiðslum. Það munar alltaf um að hafa hann inná vellinum. Þegar spilið fær að flæða í gegnum hann á miðjunni þá tikkar liðið bara miklu betur. Árni Elvar verður 23 ára seinna á árinu svo hann er enn ungur og getur tekið skref upp á við með liðinu þegar það fer í Pepsi Max deildina. Hann var einn af þeim sem skrifuðu undir nýjan samning í október á síðasta ári, sá samningur gildir út 2020.

Daníel Finns Matthíasson

Daníel Finns hefur vakið athygli með yngri flokkum Leiknis í þó nokkurn tíma, ásamt fleiri efnilegum leikmönnum. Hann er þessa dagana að rúlla upp 2. flokknum og spilar eins og algjör kóngur þar. Hann hefur líka fengið að vera mikið viðloðandi meistaraflokkinn og tekið þátt í 14 leikjum með liðinu. Hann hefur ekki alveg náð að blómstra þar eins og í 2. flokki en samt sem áður staðið sig með prýði þegar hann hefur komið inn í liðið. Hann er einn af þessum leikmönnum sem við hlökkum til að fylgjast með vaxa áfram í framtíðinni. Hann er 2000 módel eins og Sævar Atli og skrifaði fyrr í sumar undir samning sem gildir út árið 2021.

Ingólfur Sigurðsson

Ingó var búinn að tilkynna það að hann væri hættur í knattspyrnu en snerist hugur þegar Stebbi og Siggi höfðu samband við hann. Hann var til í að taka þátt í þessu verkefni með Leikni, eitthvað sem gerði okkur ljónin mjög spennt því þarna er gæðaleikmaður á ferð. Ingó fékk mjög strangt rautt spjald í 2. umferð og hefur einnig verið að glíma við leiðinleg meiðsli á hásin sem hafa truflað hann frá að taka fullan þátt í tímabilinu. En hann hefur engu að síður tekið þátt í 13 leikjum með liðinu, lagt upp þó nokkur mörk (sérstaklega úr föstum leikatriðum) og oftsinnis náð að sýna sín gæði þegar hann hefur getað verið inná vellinum. Hann skrifaði undir samning í byrjun árs sem gildir út 2019.

Daði Bærings Halldórsson

Daði Bærings er einn af þessum uppöldu. Hann hefur verið að taka þátt í tímabilinu hjá Leikni á mili þess sem hann fer til Bandaríkjanna í háskólanám og háskólafótboltann. Áður en hann yfirgaf landið í ágúst skrifaði hann undir nýjan samning við Leikni sem gildir út árið 2021. Hann gat spilað 11 deildarleiki með Leikni í þetta skiptið og þeir verða eflaust fleiri í framtíðinni. Hann er samtals kominn með 52 meistaraflokksleiki fyrir Leikni í deild og bikar.

Viktor Marel Kjærnested

Viktor kom til Leiknis fyrir tímabilið frá Aftureldingu. Hann hefur spilað fimm leiki á tímabilinu en hann er rétt 19 ára gamall og því nóg pláss fyrir hann til að vaxa og þroskast sem leikmaður. Hann skrifaði undir samning í apríl sem gildir út 2020.

Birkir Björnsson

Það hefur ekki mikið reynt á Birki á tímabilinu, hann hefur aðeins tekið þátt í 4 leikjum með Leikni (hins vegar spilað 5 leiki með KB og skorað 1 mark). Það hefur hins vegar verið mjög gott að hafa leikmann eins og Birki til að leita til þegar aðrir menn hafa dottið út úr liðinu. Það er öllum leikmannahópum dýrmætt að hafa góða menn sem eru tilbúnir að spila minni rullur en geta leyst stöðurnar vel af hendi þegar kallið kemur. Birkir er með samning fram í október á þessu ári.

Ernir Freyr Guðnason

Ernir spilaði 3 deildarleiki og einn bikarleik með Leikni í byrjun tímabils en fékk svo að fara að láni til KFG eftir að tækifærum með Leiknisliðinu fækkaði. Þar meiddist hann þó og hefur því ekki mikið náð að spila í sumar. Hann heldur þó alltaf í heiðurinn og elskar að spila fyrir Leiknisfjölskylduna. Ernir er 21 árs síðan í febrúar og skrifaði í apríl undir samning sem gildir út þetta ár.

Stebbi og Hjalti

Stefán Árni Geirsson hefur spilað 17 deildarleiki fyrir Leikni í sumar, skorað í þeim 4 mörk og valdið alls konar glundroða og ótta í vörnum andstæðinganna í allt sumar. Hjalti Sigurðsson hefur spilað 17 deildarleiki fyrir Leikni og leyst af hinar ýmsu stöður. Hjalti hefur vaxið mikið eftir því sem á sumarið hefur liðið og Stebbi hefur verið einn allra besti leikmaður deildarinnar, á sínum degi getur enginn stöðvað hann.

Báðir þessir leikmenn eru fæddir árið 2000 og því miður fyrir okkur eru þeir aðeins á lánssamningi. Það væri óskandi að þeir vildu vera lengur í Breiðholtinu en ef við horfum raunsætt á málin þá verður að teljast líklegt að þeir fari að fá alvöru tækifæri með KR. Ef ekki þá eru þeir alltaf velkomnir aftur í Breiðholtið.


TL;DR yfirferðin

Helstu upplýsingar eru þá þessar.


Renna út á samningi á þessu ári:

 • Eyjó

 • Nacho

 • Stjáni

 • Ernir Bjarna

 • Ingó

 • Birkir Björns

 • Ernir Freyr

Renna út á samningi 2020:

 • Siggi Höskulds

 • Gyrðir

 • Vuk

 • Sævar

 • Ósi

 • Bjarki

 • Árni Elvar

 • Viktor Marel

Með samning til 2021:

 • Sólon

 • Danni Finns

 • Daði Bærings

Lánssamningur ☹️

 • Stebbi

 • Hjalti

Held við hljótum að geta verið sammála um það að við viljum sjá stjórnina gera samning við þessa leikmenn sem eru að renna út á samningi eftir þetta tímabil. Ég myndi segja að það mætti semja við þá alla en ég treysti samt Sigga til að segja til um það ef krafta einhverra verður ekki óskað áfram. Það kæmi mér þó á óvart, ef ég á að segja eins og er.

Síðan bíður ákveðinn hausverkur stjórnarinnar og Sigga sem felst í því að fylla í skarð lánsmannanna. Við erum opin fyrir hugmyndum ef fólk vill nota þennan vettvang til að fabúlera um bestu strategíurnar í þeim málum.

206 views0 comments

Recent Posts

See All