• Ljón

Norður og niður með bikardrauminn

Það var stutt, gamanið í bikarnum þetta árið, eins og reyndar nánast alltaf þegar Leiknir á í hlut. 6-0 er niðurstaðan eftir heimsókn til Akureyrar sem líklega allir Leiknismenn myndu borga jafnvirði annars miða á leikinn fyrir að geta gleymt.

Nú reynir á þennan

Strákarnir flugu norður í eftirmiðdaginn ásamt tveimur öðrum liðum sem áttu stefnumót í bikarnum líka og maður vill trúa að þeir hafi verið jafnspenntir og stuðningsmenn að máta sig við Pepsideildarlið sem hefur farið hægt af stað. Siggi valdi byrjunarlið sem benti til þess að einhverjir þyrftu smá hvíld en samt sem áður er mórallinn það góður að sjálfstraustið hlýtur að hafa verið heilmikið og áætlunin að spila til sigurs. Eftir að okkar menn byrjuðu nokkuð sprækir fyrstu 5 mínúturnar, voru þeir arfaslakir þegar heimamenn spiluðu þá í spað og skoruðu auðvelt mark eftir 6 mínútur. Þá misstu þeir taktinn nánast alveg og mönnum hefði kannski verið fyrirgefið fyrir að reyna að ná vopnum sínum í nokkrar mínútur og venjast skelfilegum vallaraðstæðum sem hafa verið mikið milli tannanna á þeim sem þekkja til. En menn sem við treystum til að vita betur, gerðu út um nokkra spennu í leiknum þegar aðeins þriðjungur hans hafði runnið sitt skeið. Þeir Binni Hlö og Sólon voru komnir í sturtu eftir 31 mínútu og leiknum lokið í raun og veru þá. Binni hafði fengið ósanngjarnt gult spjald fyrir smá statement stuð á miðjunni á 18.mínútu. Sólon rann svo illa inn í tæklingu á Hallgrími Jónassyni mínútu síðar þegar hann átti engan sjéns að gera neitt og uppskar gult spjald. Í fljótu bragði töldu margir að beint rautt gæti verið sanngjarnt en við endursýningu sést að hann fer af gáleysi í óvinnanlegt einvígi en er hvergi með takka uppi eða í raun að reyna að tækla nokkurn. Hann tekur þó manninn niður (sem lenti svo í sjúkrabíl) og þó hægt sé að kenna skónum, vellinum eða öðru um, fékk hann gult þar.


Dómarinn er ekkert alltaf vinsæll meðal Leiknismanna

Á einhvern óskiljanlegan hátt fer Sólon aftur hlaupandi eftir boltanum gegn markverði á miðjum vallarhelmingi heimamanna 10 mínútum síðar og straujar hann niður. Ekki ósvipað fyrri "tæklingunni" en í raun ekkert hægt annað en að dæma aftur gult á brotið, ef ekki á dómgreindarleysið sem hann sýndi þarna. Binni ákvað að trompa dómgreindarleysi Sólons með því að spretta upp völlinn og láta dómarann heyra það. Það verður fróðlegt að fá að heyra hvaða orð misbauð dómaranum svo að hann lét okkar reyndasta leikmann fjúka með sitt annað spjald. Það hefur þurft að vera fjandi litríkt því ekki veittist hann að dómaranum líkamlega. En miðað við það umtal sem dómarinn hefur fengið nýlega og hversu duglegur hann hafði verið að leita í vasann fram að þessu í leiknum, hljótum við að geta gert kröfu á þennan reynslubolta að vita margfalt betur.


Eftirleikurinn var auðveldur fyrir heimamenn sem bættu einu marki við í fyrri hálfleik og aflífuðu okkar menn með 4 í viðbót í seinni hálfleik. Það fallegasta sem hægt er að segja um frammistöðu okkar liðs í kvöld er að enginn meiddist.


Nú tekur við nokkuð stórt verkefni hjá þjálfarateyminu að hjálpa strákunum að afskrifa þetta hliðarspor/pungspark og keyra af krafti á Vestra heima á Domusnovavellinum á sunnudag. Það er þetta klassíska, við getum einbeitt okkur að deildinni núna en það er ljóst að menn verða að mæta betur stemmdir en þetta til leiks í Lengjudeildinni. Þessi leikur fór ekki úr böndunum af því að KA er í PepsiMax-deildinni sko. Góðu fréttirnar eru hins vegar að við getum treyst því að karakter hópsins er þess legur þeir þurfa ekki skammir frá okkur stuðningsmönnum til að gera mikið betur. Þeir þjappa sér saman og gefa okkur eitthvað til að fagna á fyrsta heimaleik ársins í Lengjudeildinni á sunnudag.


#ÁframGakk

#StoltBreiðholts

#HverfiðKallar

#OperationPepsiMax

183 views0 comments