• Ljón

Mjólk er vond: Leiknir 1-4 Fjölnir

Gestirnir fóru létt með Leiknismenn eftir að okkar menn skoruðu fyrsta markið í seinni hálfleik.

 

Eftirvæntingin var mikil meðal Leiknisljóna þegar flautað var til leiks í fyrsta alvöru leik "sumarsins" í gærkvöld á Leiknisvelli. Fjölnismenn, sem komu niður í Inkasso-deild síðastliðið haust, voru í heimsókn í 2. umferð Mjólkurbikarsins í leiðindaveðri. Spáin um að rigning dagsins tæki enda rétt fyrir sparkið, stóðst ekki. Heldur ekki að vindurinn myndi drulla sér niður í 7 metra á sekúndu. Það var því voðalega lítið stuttbuxnaveður í Breiðholtinu að þessu sinni.

Leikurinn byrjaði með nokkrum barningi þar sem bæði lið voru að venjast aðstæðum og ef til vill hrista sig í gang eftir æfingarferðir. Það var mikið kallað milli manna og töluverð taugaspenna beggja vegna. Hjalti, nýji lánsmaðurinn frá KR, var við hlið Gyrðis á miðri miðjunni og virtust þeir oft ekki finna sig nógu vel í að tengja vörn við framliggjandi miðjumenn liðsins í fyrri hálfleik. Ósvald var sprækur upp vinstri kantinn og Ingó var alltaf með augun framávið, stundum jafnvel aðeins of mikið á undan samherjum sínum sem virtust vilja aðeins hægara tempó til að byggja upp sóknirnar. Sólon er alltaf hættulegur fremst á vellinum en það vantaði aðeins uppá að boltarnir rötuðu til hans. Dauðafærin létu sig vanta fyrir okkar menn en Eyjó þurfti að taka á honum stóra sínum allavega tvisvar í fyrri hálfleik. Ekki tókst að skora með vindi í fyrri hálfleik.


Stefán Gísla sá ýmislegt sem verður hægt að bæta

Þegar flautað var til seinni hálfleiks var klárt að hvorugt liðið ætlaði að sigla þessu í markalausa framlengingu. Hrollurinn var úr mönnum og áttu Fjölnismenn svakalegt skot í slá okkar manna á 56.mínútu. Í næstu sókn átti Ingó flotta fyrirgjöf úr aukaspyrnu frá vinstri kanti sem Gyrðir afgreiddi myndarlega innan úr vítateignum. Mikið var fagnað af þeim sem ekki sátu heima í sófanum að glápa á drepleiðinlega Meistaradeildarleiki. Mark Leiknismanna varð þó sparkið í rassinn sem Fjölnismenn þurftu og þeir tók í raun öll völd eftir þetta. Gummi Palli brunaði upp vinstri kantinn og framhjá varnarmönnum Leiknis. Eftirleikurinn var auðveldur og Hans Viktor mætti fyrirgjöfinni með fagmannlegri afgreiðslu.


Okkar menn náðu ekki að lægja öldurnar og misstu einbeitinguna aðeins fjórum mínútum síðar þegar Albert Brynjar slapp í gegn á mikilli siglingu og enginn tók almennilega af skarið áður en hann smellti boltanum framhjá Eyjó. Blaut vatnstuska í andlitið ofan á leiðindavindátt og úrkomu fyrir okkur Leiknismenn.


Það liðu ekki nema 7 mínútur í viðbót áður en Gummi Kalli náði að plata okkur inni í teig og fiskaði þar iðnaðarmannavítaspyrnu. Hún var afgreidd af öryggi af Alberti Brynjari. Eyjó átti ekki sjéns.


Það mættu nokkrir grjótharðir úr Grafarvoginum í bjór og Nachos fyrir leik og svo beint út á hólinn

Því miður hengdu okkar menn þarmeð haus og það stóð ekki steinn yfir steini í spili Leiknismanna það sem eftir lifði leiks. Sorglegt því eitt af markmiðum nýja þjálfarans er að gefa öllum liðum leik í sumar og það verður bara að viðurkennast að menn létu valta yfir sig þegar á reyndi. Fjölnismenn bættu við 4.markinu og hefðu hæglega getað aflífað heimamenn með því 5.


Á síðustu mínútum venjulegs leiktíma lét Vuk svo pirringinn bera sig ofurliði þegar hann fór harkalega fram inni í teig Fjölnismanna á leið frá markinu og kórónaði hann vondan dag sinn með því að fá beint rautt spjald að óþörfu. Hann lærir að þessari reynslu enda mikið efni sem verður gaman að sjá vaxa og þroskast í sumar.


Eins og Elvar Geir Magnússon benti réttilega á í 4.þætti Ljónavarpsins, þá er um að ræða lið sem er að koma úr Pepsi-deild og verður að öllum líkindum spáð efsta sæti Inkasso-ástríðunnar. Það er því engin skömm í því að lúta í lægra haldi fyrir þeim. En undirritaður hefði viljað sjá menn bera sig betur þegar menn sáu í hvert stefndi. Það er mikilvægt að bæði leikmenn og ljón geti borið höfuðið hátt á leið heim eftir leik. Nú tekur við rúmlega tveggja vikna undirbúningur fyrir ástríðuna og heimsókn meistaranna frá Grenivík 4.maí næstkomandi.


Byrjunarlið Leiknis:

Einkunnir (1-5): Eyjó 4, Ósi 4, Ernir 3, Bjarki 3, Eddi 2, Gyrðir 3, Hjalti 3, Vuk 2, Sævar Atli 3, Ingó 4, Sólon 3.


99 views0 comments