Miskunarlaust meistaralið í heimsókn

Updated: Jun 18, 2019

Veðuguðirnir brugðust okkur á Leiknisvelli í dag og einnig lukkudísirnar þegar gestirnir í Þór frá Akureyri hirtu öll stigin næsta auðveldlega með 0-3 sigri.

 

LEIKNIR 0 - 3 Þór

0-1 Alvaro Montejo (31.)

0-2 Ármann Pétur Ævarsson (61.)

0-3 Alvaro Montejo (63.)


Byrjunarliðið í dag

Okkar menn töpuðu sínum öðrum leik í röð með 3 mörkum og án þess að skora mark en í þetta sinn er óhætt að segja að þeir hafi einfaldlega mætt ofjarli sínum í stað andleysis eða aumingjaskaps. Þórsarar voru virkilega öflugir alls staðar á vellinum og gáfu ekki þumlung eftir í eina einustu mínútu í leiknum. Verðskuldaður sigur og langsterkasta liðið sem Leiknir hefur mætt í vor og sumar.


Skýrslan á .net

Skýrslan á KSÍ

Viðtal við Stebba Gísla í leikslok

Viðtal við Gregg Ryder í leikslok

Leikdagur á Instagram Story Ljónavarpsins


Þrátt fyrir flotta veðurspá og síðasta laugardagsleikinn á Leiknisvelli sem ekki er við frostmark, þá var stuðningurinn við strákana af sorglega skornum skammti í dag þegar þeir þurftu mest á því að halda. Það væri virkilega gaman að heyra einhverja frumlegri afsökun heldur en "ein stærsta ferðahelgi ársins" helgi eftir helgi. Það er erfitt að gera miklar væntingar til strákanna þegar það eru innan við 50 manns mættir þegar Elvis ræskir röddina í Breiðholti.


En það er semsagt skemmst frá því að segja að við mættum ofjarli okkar í þessum leik. Þórsarar eru Pepsideildarlið á vitlausum stað. Svo einfalt er það. Þeir mættu þéttir til leiks og þó að okkar menn hafi verið meira með boltann og litið nokkuð vel út fyrstu 30 mínúturnar, þá náðum við aldrei að ógna af neinni alvöru og þegar tækifærið kom, var Alvaro Montejo, markahæsti maður deildarinnar, mættur til að slútta í hraðaupphlaupi.Annan leikinn í röð virðast Leiknismenn koma slakari til seinni hálfleiks en þess fyrri. Allt tal um að gefa öllum leik og að okkar menn séu í góðu standi líkamlega tapar svolítið trúverðugleika þegar menn mæta svona liði eins og Þórsurum. Dómarinn leyfði þónokkra hörku og þó að Þórsarar væru í mikið sterkari stöðu með forystu í seinni hálfleik var hægt að mæta þeim með pústi og djöfulgang í stað þess að pirra sig á aðstæðum og gefa hægt og rólega eftir og tapa svo leiknum endanlega niður. Það er spurning hvort við séum með of mikið af lúxusleikmönnum sem höndla illa að vinna til baka og þétta raðirnar þegar á þarf að halda.


Annað markið kom eftir vond mistök hjá Bjarka þar sem Montejo komst framhjá honum við endalínuna og setti boltann fyrir Ármann Pétur sem afgreiddi hann í netið. Það þriðja kom stuttu síðar þar sem Montejo og Jakob Snær spiluðu okkar menn sundur og saman áður en sá spánski þrusaði í þröngu færi á nærstöng framhjá Eyjó. Blússandi sóknarbolti og leiknum í raun lokið með 30 mínútur eftir af spilatíma.


Hnetuskel:

Þór er fyrirmynd fyrir Leikni ef planið er að fara upp í Pepsi eftir 1-3 tímabil. Þó við getum sagt að fyrsta mark þeirra hafi komið gegn gangi leiksins er það innihaldslaust að segja því okkar menn höfðu ekki náð neinu skýru færi fram að því þó þeir væru meira með boltann. Gestirnir töluðu saman um allan völl, voru þéttir varnarlega og refsuðu öllum mistökum okkar miskunarlaust. Það er Pepsi! Í ofanálag héldu þeir einbeitingu allan leikinn og spiluðu til síðustu sekúndu einbeittir með kassann út og hafa nú unnið síðustu 3 leiki með markatöluna 8-0. Ef þeir fara ekki upp sem meistarar þessarar deildar, hefur eitthvað mikið farið úrskeiðis. Oooooog þess vegna er óþarfi að örvænta fyrir Leiknismenn. Þetta var eins og Ísland að mæta Frakklandi. Þeir hefðu þurft að spila mikið verr til að við ættum sjéns.Leiknismaður Leiksins: Ernir Bjarna:

Aftur er Ernir einn af fáum sem nær að halda baráttunni allan leikinn og drífur spilið svolítið áfram þegar aðrir virðast missa móðinn. Það var eitt tilfelli þar sem hann var ráðalaus á miðjunni með boltann og missti hann en annars var hann alltaf að láta finna fyrir sér og reyna að skapa eitthvað fram á við.


Aðrir Ferskir:

Árni Elvar við hlið Ernis var flottur í fyrri hálfleik en það sést að hann gengur ekki heill til skógar og var tekinn útaf snemma í seinni hálfleik. Við máttum illa við að missa hann af velli. Hjalti var nokkuð góður í hægri bak og leitaði öruggur upp kantinn þegar tilefni var til í leit að færum. Hann var tekinn útaf, væntanlega fyrir meiri sóknartilburði en ekki frammistöðu. Besti leikur hans hingað til í Leiknisbúningnum.


Hvað má betur fara?

Baráttan og leikplanið þegar búið er að kýla okkur með fyrsta markinu. Þetta var erfiður andstæðingur eins og áður segir og því erfitt að drulla yfir leikmenn fyrir tap en það þarf enga hæfileika til að láta finna fyrir sér og fyrst að dómarinn var að leyfa heilmikla hörku hefði verið gaman fyrir þá fáu sem mættu á völlinn að sjá meiri stympingar og gefa gestunum meiri leik. Manni er einmitt hugsað til stuðningsmannakvöldsins þar sem formaðurinn spurði þjálfarann hvort það væri markmið útaf fyrir sig að gera Leiknisvöll að virki þar sem andstæðingar fengju hálfgert kvíðakast yfir að þurfa að mæta okkar mönnum. Stebbi svaraði því til að það væri ekki markmið útaf fyrir sig en það þyrfti að vinna baráttuna áður en maður vinnur leikinn. Við viljum fá að vinna annað hvort eða bæði. Ekki hvorugt. Það eru of mörg mistök að gerast í vörninni. Auðvitað söknum við Nacho í hjarta varnarinnar en hann kemur vonandi til baka í næsta leik en jafnvel með hann í liðinu er vörnin of brothætt og að sama skapi virðast sókndjörfu leikmenn okkar ekki vera að finna lausnir þrátt fyrir að vera margir í liðinu.Hvað nú?

Stutt vika framundan og leikur við Hauka í Hafnarfirði á fimmtudag. Þeir unnu Aftureldingu í Mosó á fimmtudag og eru jafnvel að ná vopnum sínum eftir brösuga byrjun og þjálfaraskipti. Þeir eru líka gamla félagið hans Stebba Gísla. Vonandi er það extra innblástur til að berja okkar menn saman og taka 3 stig í þeim leik. Ef sá leikur tapast gætu hlutirnir þróast þannig að við séum aftur farin að tala um fallbaráttu. Það má ekki gerast. Við verðum að fara að finna jafnvægi og stíganda í liðinu okkar. Það er áhyggjuefni að vera fjarri því að skora úr opnu spili tvo leiki í röð. Ef planið var að leggja einhvern grunn í sumar að sigri í deildinni á næsta sumri (eða því næsta eftir það), þá er verkefnið ekki á réttri leið. Það er ekki búið að finna uppstillingu eða skipulag sem gefur öllum liðum leik. Svona hlutir eiga það til að smella saman allt í einu þó að það sé erfitt að sjá fram að því að maður heyri/sjái smellinn en við krossleggjum auðvitað fingur og vonum það besta....og mætum á Ásvelli á fimmtudagskvöld. Þrátt fyrir að það sé stærsti ferðafimmtudagur ársins :)#ÁframLeiknir

#StoltBreiðholts

90 views1 comment