• Ljón

Þung, jafnvel óverðskulduð 3 stig

Það þýðir engin vettlingatök hér. Þetta var skelfileg frammistaða hjá okkar mönnum í dag. Það er illmögulegt að vera óánægðari með leik sem maður fær 3 stig úr. Í jákvæða dálkinn er hægt að setja tvennt; Hann hélst þurr og við erum með Sævar Atla Magnússon í leiðtogahlutverki. Annað ekki.

Það var þungt yfir vellinum og ofan á honum í dag

Skýrslan á .net


Það er víst alltaf talað um að það sé meistarabragur yfir þeim liðum sem geta spilað illa og landað samt 3 stigum. Gott og vel. En þá er yfirleitt verið að tala um lélegan leik gegn andstæðingi með gæði og/eða baráttu til að spilla fyrir. Eins mikið og maður dáist að Magnamönnum fyrir að halda sér í deildinni í 3 ár, þá eru þeir með langslakasta hópinn í Lengjudeildinni þetta árið, 0 stig og allt sem við sáum í dag var að það er verðskuldað. Að okkar menn hafi mætt til leiks og ekki verið búnir að kaffæra þetta lið fyrir hálfleikshlé, er fáránlegt. Að þeir hafi verið undir í leikhléi er ófyrirgefanlegt.


Það var því miður enginn Hjalti í byrjunarliðinu en í staðinn deildu tvíburabræðurnir bakvarðastöðum með Binna og Gyrði í miðverði. Binni meiddist eftir 8 mínútur án samstuðs og lá alveg í valnum. Þetta eru líklega fjöldi vikna frá miðað við það. Það má alveg gera ráð fyrir því að hefði hann verið inná vellinum að horfa uppá and- og skipulagsleysið umfram þessar 8 mínútur, þá hefðu menn verið öskraðir í gang margfalt fyrr og hvar sem hann spilar á vellinum, verður hans nærveru saknað mikið í fjarverunni.Það má líka vel vera að uppsetningin á liðinu hafi falið í sér of mikið vanmat á andstæðingnum því menn virtust ekki alveg vera með jafnvægi í aðgerðum sínum. Máni í bakverði en hann sinnti því hlutverki ekkert. Hann og Vuk virtust geta vaðið inn í teig framhjá slökum varnarmönnum gestanna aftur og aftur en tóku líka aftur og aftur rangar ákvarðanir þegar þangað var komið. Það var svosem saga liðsins mestallan leikinn. Menn tóku annað hvort allt of einfaldar ákvarðanir eða reyndu allt of flóknar sendingar en það kom hvoru tveggja í sama stað niður.


Mark Magnamanna kom eftir einfalda hreinsun upp völlinn og þeir Bjarki og Gyrðir voru fíflaðir af Cairo einum og óstuddum sem setti boltann snyrtilega framhjá Smitaranum í markinu. Alveg galið dæmi! Og þannig við sat við í hálfleik.


Það mátti alveg búast við heildsölubreytingum í hálfleik en ekkert kom. Menn mættu heldur ekkert sjúklega brjálaðir til leiks þá. Voru samt með vindi, sem var einhvers konar léttir. En það var áberandi lítil ákefð í liðinu. Menn eru bara ekki að ná að gíra sig upp gegn slakari andstæðinum í deildinni. Þetta er áhyggjuefni. Magnamenn komu sterkir inn í öll einvígi og gerðu það sem þeirra gæði bjóða uppá. Það var svo alger himnagjöf þegar Baldvin Ólafs "hreinsar" frá í eigið mark. Ótrúleg tilþrif reyndar. Virtist auðveldlega geta hreinsað útaf en setti hann af krafti í þaknetið. Takk fyrir það því það var EKKERT að gerast hjá okkar mönnum.


Í markinu meiddist Bjarki og hann þurfti því að kveðja partýið. Á sama tíma var Gyrðir tekinn útaf, líklega vegna meiðsla. 3 miðverðir farnir útaf í sama leiknum. Inn komu Hjalti og Shkelzen. Báðir frískuðu nokkuð uppá leik okkar manna og sigurmarkið kom svo 4 mínútum síðar.


Sævar Atli Magnússon er fyrirliði félagsins sem hann lifir fyrir. Hann er líka hæfileikaríkur sóknarmaður en hvorugt af þessu þýðir endilega að hann sé með stærsta hjarta deildarinnar. En þarna er það. Tikkandi af krafti alla leiki. Ósérhlífinn og lætur verkin tala. Aldrei slegið af. Og í þetta sinn þýðir það 2 stigum meira en við áttum skilið út úr þessum leik.Gulldrengnum leiddist þófið á hægr kantinum, kom bara til baka og tók boltann af gestinum með fullkomlega löglegum en ákafum hætti. Hann hefði líklega getað sent hann ómarkvisst inn í teig þaðan en það hafði skilað núll árangri til þess. Því brunaði hann í átt að teignum, tók smá gabbhreyfingu og skyldi varnarmann eftir á rassinum, tók svo tvo á og dúndarði framhjá markverðinum. Þetta er það sem maður kallar að glíma andstæðinginn í gólfið og klára verkefnið. Þvílík lífsgæði að hafa svona mann í liðinu.


Það hefði mögulega verið hægt að bæta í en að sama skapi hefðu gestirnir alveg getað grísast til að skora aftur. Við þiggjum 3 stigin og vonum að menn fari að sjá að þeir verða að klára verkefnið á vellinum gegn öllum, ekki bara sexý andstæðingunum. Það er hlutverk stuðningsmanna að vanmeta andstæðinginn, ekki leikmanna.


Nú fáum við VíkingÓ í heimsókn á miðvikudagskvöld með eitthvað voðalegt númer í þjálfarasætinu. Þar duga enginn vettlingatök frekar en í dag. Það þýðir ekkert að sýna sjálfum sér miskunn ef það er virkilega markmið og trú liðsins að það geti farið upp. Það eru bara tvö lið á leiðinni upp og við erum ekki betri en allavega eitt þeirra. Að venju eru góðu fréttirnar þær að við getum verið viss um að þjálfarateymið og leikmenn sjálfir geri sér allir grein fyrir þessum málsvöxtum. Nú er bara spurning hvort þeir séu færir um að gera eitthvað í því. Við sleppum ekki svona vel næst.78 views0 comments