Leikni og Lyngby lyndir vel saman

Á síðustu vikum hafa Leiknismenn heimsótt kóngsins Lyngby í stríðum straumum. Ekki bara stuðningsmenn sem vilja skoða ný heimkynni okkar manna og komast í tæri við alvöru stemningu heldur hafa nú ungir leikmenn úr 2. flokki Leiknis verið að fá að máta sig við unglingastarf eins og það gerist best í fagmennsku Skandinavíu.

Eins og allir vita er Freyr Alexandersson við stjórnvölin og fékk hann að stela fógetanum, Sævari Atla Magnússyni, um mitt tímabil í baráttuna sem þeir eru í núna. Þegar einn leikur er eftir á árinu fyrir vetrarfrí, er liðið í góðum málum við toppinn á næstuefstu deild og allt gengur á áætlun. Núverandi yfirþjálfari Leiknis, Sigurður Höskulds, heimsótti Freysa og félaga í haust og nú hafa fjórir af okkar allra efnilegustu ungu leikmönnum fengið að dvelja í viku hjá okkar félagi í Danmörku og æft með U-19 ára liðinu þeirra sem er í 3. sæti í Danmörku sem stendur. Þeir Davíð Júlían Jónsson (c) og Jón Hrafn Barkarson fóru saman og svo tóku við þeir Andi Hoti og Shkelzen Veseli. Allir hafa þessir drengir spilað fyrir yngri landslið Ísland og ætla sér stóra hluti í boltanum á næstu árum. Fyrir þá sem ekki þekkja til þeirra, getur undirritaður kvittað fyrir að þeir eru allir með tölu mjög spennandi leikmenn sem hefur verið gaman að fylgjast með í 2. flokki og spreyta sig svolítið með meistaraflokki.

Það eru auðvitað miklar gleðifréttir að nú sé félagið okkar komið með hauk í horni þar sem Lyngby er í fagmennskunni og vonandi geta bæði félög grætt fullt á þessum vinskap til næstu ára.

Freysi og Sævar taka svo slaginn við Koge í síðasta leik ársins hjá Lyngby á morgun klukkan 12:00 á hádegi. Í beinni á Viaplay að sjálfsögðu.
#SammenForLyngby #StoltBreiðholts

#HverfiðKallar

50 views0 comments

Recent Posts

See All