Hvað nú?

Það er allt að gerast eftir glæsilega ferð til Ólafsvíkur þar sem 3 stig voru tekin með flottum vinnusigri og stuðningi góðs hóps Leiknisljóna í stúkunni. Hin toppliðin misstigu sig ekki heldur svo hvað getur nú gerst á síðustu 2 vikum tímabilsins? Skoðum það.

CRUNCH-TIME í LENGJUDEILDINNI. Mynd eftir Hauk Gunnars

Í 20. umferðinni sem var kláruð í dag varð klárt að liðin þrjú sem síðustu vikur eru búin að berjast um 2 efstu sætin, eru nú formlega ein eftir með möguleika á að fara upp. Svona er staðan núna:

Keflvíkingar hafa haldið efsta sætinu í nokkrar vikur með öflugri spilamennsku og hafa hingað til notið þess að vera með leik til góða. Sá leikur gæti hleypt öllu í háaloft núna á lokasprettinum. Þeir þurfa nefnilega að tryggja sér sætið með því að spila 3 leiki á einni viku á meðan við og Framarar höfum heila viku milli síðustu tveggja leikjanna. Og þessi miðvikuleikur þeirra er gegn Grindavík, sem eru búnir að vera á siglingu upp á síðkastið. Hér er form liðanna í deildinni í síðustu 5 leikjum. Eins og sést á þessari töflu og við munum frá því núna um daginn, þá eru Sindri og Grindavík ekkert lamb að leika sér við um þessar mundir þó þeir hafi að engu að spila lengur:

Næsta helgi er lykillinn að þessu: Það eru alls kyns möguleikar sem gætu komið upp strax eftir leikina sem verða spilaðir á laugardaginn næsta enda eru topp 4 liðin öll að mætast þar í 2 leikjum. Þar á meðal getur komið upp draumastaðan þar sem Leiknir er nánast búið að gulltryggja sig upp um deild:

Draumatilfellið: Ef okkar menn ná að sigrast á sterku liði Grindavíkur á heimavelli og Nacho vinur okkar og Keflvíkingar sigra Framara í Sambamýri, þá er pálminn kominn í hönd okkar manna og mótið 99% búið. Með því móti væru Keflvíkingar formlega búnir að tryggja sig upp með 2 leiki eftir og við komnir með 3 stiga forystu og amk 13 markatölu mun á Framara með 1 leik eftir. Til að klúðra því þyrftum við að tapa stórt í síðasta leik og Framara að vinna enn stærra í sínum síðasta leik í Vestmannaeyjum.

Martraðatilfellið: Grindavík sigrar okkur í Breiðholti og Framarar sigrast á Keflvíkingum. Þá taka Framarar toppsætið í bili, Keflvíkingar 2. sætið með leik til góða og við rekum topplestina og þurfum að vinna á Akureyri og vonast til að Framarar fari fýluferð til Eyja. Ólíklegri kosturinn væri að Keflavík gæti ekki pikkað upp 3 stig samanlagt úr tveimur heimaleikjum gegn Grindavík og Magna í Keflavík. Það er nánast óhugsandi þar sem Keflavík hefur tapað fyrir engum á þessu tímabili nema Leikni....tvisvar.


Limbótilfellið: Við sigrum Grindavík í Breiðholti og hin toppliðin tvö skilja jöfn í Sambamýri. Þá Tökum við toppsætið með 45 stig, Keflavík stigi á eftir en alltaf með leik til góða og Framarar í 3. með 43 stig. Við þyrftum þá alltaf að sigra Þór á Akureyri til að tryggja okkur upp á eigin verðleikum þar sem við gerum ráð fyrir að Keflavík tapi í það minnsta ekki fyrir Magna á heimavelli í síðustu umferð, ef allt færi á versta veg hjá þeim gegn Grindavík.


Glatað tilfelli: Við töpum gegn Grindavík og hin liðin gera jafntefli. Þá erum við aftur í 3. sæti, stigi á eftir Fram. Þá þyrftum við að vinna á Akureyri og treysta á andlausa Vestmannaeyinga til að bjarga tímabilinu fyrir okkur með því að taka sigur eða jafntefli gegn Safamýrisstórveldinu. Reyndar myndi jafntefli hjá okkur á Akureyri þá duga ef ÍBV sigrar Fram en það væri í öllu falli mjöööög óþægilegt að setja #OperationPepsiMax í hendur Eyjaskeggja.


Allt í járnum tilfellið: Við vinnum Grindavík og Fram sigrar Keflavík. Þá tökum við toppsætið með Fram í rassgatinu á okkur á sama stigafjölda og Keflvíkingar fara í 3. sætið með 2 stigum minna en leik til góða áfram. Það er þó klárlega staða sem Nacho og Co. myndi mislíka þar sem þeir væru í raun tilneyddir að vinna bæði Grindavík og Magna til að vera öruggir upp. Þeir eru í raun komnir með bakið uppvið vegg ef þeir tapa fyrir Fram næstu helgi.Eins og sjá má, gæti þetta ekki verið meira í járnum en að sama skapi er ljóst að langvænsti kosturinn fyrir toppliðin tvö núna er að klára verkefnið nánast endanlega með sigrum næstu helgi. Vonandi eru Siggi og strákarnir að fara að mæta til leiks á gervigrasinu okkar bandbrjálaðir, staðráðnir í að tryggja okkur 3 stig sama hvað! Ef Keflavík mætir almennilega til leiks líka, þá gætum við sem þurfum ekki að spila sjálfan síðasta leikinn og erum ekki velkomin í stúkuna, skálað í Pepsi-Max strax eftir 6 daga. Jafnvel með smá dreitil af Kafteini útí :)


Í öllu falli, gerið okkur öllum greiða og sendið hlýja strauma á strákana okkar á þessum skemmtilegu tímum. Eins og áður hefur verið sagt eru það mikil forréttindi að það eru kominn 4. október og við erum enn að horfa á fótbolta sem skiptir einhverju máli. Sama hvað, þá eru strákarnir okkar svo sannarlega.....#StoltBreiðholts


371 views0 comments

Recent Posts

See All