Guy Smit á Hlíðarenda

Hollendingurinn háværi hefur lokið störfum hjá Leikni eftir tvö glæsileg ár sem alger lykilleikmaður og hefur nú tryggt sér samning hjá Völsurum fyrir næsta ár.


Guy Smit hlýtur að skrást sem besta "skítaredding" í sögu íslenskrar knattspyrnu en hann var fenginn til liðsins á allra síðustu stundu í fyrra þegar ljóst var að Ásgeir Magnússon myndi ekki standa milli stanganna eins og ætlunin hafði verið. Sagan segir að Hannes Þór hafi bent á þennan dreng sem hann hafði kynnst á tíma sínum í Hollandi og var hann mættur til landsins að taka slaginn í Lengjudeildinni með engan tíma að missa.


Það þarf ekki að fara yfir það sem Guy hefur gert fyrir félagið. Hann stóð eins og klettur milli stanganna í Lengjudeildinni og samdi svo aftur við félagið þegar ljóst var að hann gæti reynt sig gegn þeim bestu í Pepsi Max-deildinni í ár. Það er á hreinu að félagið væri ekki í þeim góðu málum sem það er í dag ef Guy hefði ekki notið við. Við fengum að kynnst kappanum í nærmynd fyrir þetta tímabil:


Guy er samningslaus við Leikni núna og heldur á vit ævintýranna hjá ríkasta félagi landsins og vonandi er nýr samningur hans í samræmi við það því hann er ekki bara að koma með tvo Stanno-hanska milli stanganna. Hann kemur með sína einstöku ástríðu sem hefur verið með öllu fjarverandi á heimavelli Valsara þetta tímabilið.


Þó að Guy hafi ekki alist upp í Leikni þá steig hann sín fyrstu skref hér sem atvinnumaður utan heimalandsins og líkaði greinilega það vel að hann ætlar að verða um kyrrt enn um sinn. Við óskum okkar manni að sjálfsögðu til hamingju með nýja ævintýrið og þökkum honum fyrir þessi stórkostlegu ár sem hann gaf okkur í Ofur-Breiðholti.


Bedankt Guy!

#TakkGuy

#StoltBreiðholts

55 views0 comments

Recent Posts

See All