Fallbarátta framundan?

Updated: Jun 1, 2019

Leiknismenn töpuðu 1-2 fyrir Njarðvíkingum á heimavelli í kvöld og stefna beinustu leið í fallbaráttuna í Inkasso þrátt fyrir markmið um allt aðra stöðu eftir fyrstu 3 leiki tímabilsins.


 

LEIKNIR 1 - 2 Njarðvík

0-1 Toni Tipuric ('32)

0-2 Stefán Birgir Jóhannesson ('41)

1-2 Sævar Atli Magnússon ('89)

Áhorfendur: 252


Íþróttafélagið Leiknir hélt uppá 46 ára afmæli sitt í dag og væntingar voru miklar þegar fyrsti leikur sumarsins var spilaður á grasvelli Leiknis en vonbrigðin leyndu sér ekki í leikslok enda virðist liðið ekki ætla að standa undir væntingum þetta sumarið með 3 stig úr 3 leikjum eftir "auðveldustu" andstæðingana í mótinu í þessum fyrstu umferðum.


Skýrslan á .net

Leikskýrsla á KSÍ

Viðtal við Stebba Gísla

Viðtal við þjálfara Njarðvíkur


Eftir vonbrigðisósigur í Mosó fyrir viku var klárt mál að okkar menn þurftu að mæta til leiks á heimavelli tilbúnir að sanna fyrir sjálfum sér og stuðningsmönnum að þeir ætluðu sér meira en daður við fallbaráttu úr Inkasso í sumar. Þeim mistókst það ætlunarverk. Það er ekkert flóknara en það.


Uppstillingin virtist vera óbreytt frá fyrstu 2 leikjum í deildinni þó að mannabreytingar hafi orðið í byrjunarliðinu. 4-2-3-1 varð fyrir valinu þar sem Ósvald kom inn fyrir Edda í vinstri bakverði og Vuk kom inn fyrir Ingólf sem var í banni. Það er skemmst frá því að segja að liðið er ekki búið að venjast þessari uppstillingu eða getur einfaldlega ekki spilað hana.

Stillimynd viðtalsins á .net segir alla söguna

Allann fyrri hálfleik var leikur okkar manna tilviljanakenndur og sundurslitinn. Gyrðir og Hjalti fengu það hlutverk að vera raunverulegir miðjumenn liðsins á meðan Vuk, Sævar og Stefán Árni voru í raun allir sóknarmenn bakvið Sólon. Kristján og Ósvald brunuðu svo upp kantinn við hvert tækifæri og þegar þannig lá við þurfti Gyrðir að bakka í miðvörð með Bjarka og Nacho. Sem þýðir í raun að Hjalti var eini miðjumaður liðsins á miðjunni sjálfri. Þetta fyrirkomulag virkar ekki. Allavega ekki hingað til gegn þeim sem teljast veikustu andstæðingar okkar þetta árið og mun ekki lagast nema einhver af framliggjandi miðjumönnunum sætti sig við að hafa ekki eins frjálsar hendur framávið. Að mati undirritaðs er ekki um að ræða vanmat eða áhugaleysi leikmanna heldur hreinn og beinn leikkerfisvandi. Það eru of margir að sækja og engin mótstaða á miðjunni, sem skilur vörnina eftir berskjaldaða fyrir árás frá andstæðingunum. Það var kannski ekki kexrugluð hugmynd að halda að sókndjarft kerfi myndi virka gegn 3 lökustu liðum deildarinnar en þessi ákvörðun hefur hérmeð dáið mjög ofbeldisfullum dauðdaga og Stefán Gísla verður að ígrunda alvarlega að skipta yfir í meira hefðbundið kerfi til að þétta miðjuna og spila upp völlinn. Allt of oft í kvöld vorum við að horfa á vörnina og þá Hjalta og Gyrði reyna að gefa stoðsendingu frá vítateig okkar án árangurs. Njarðvík las þetta auðveldlega og sóknarleikur okkar manna var næsta bitlaus í fyrri hálfleik þó að Sólon komi alltaf til með að finna einhver færi. Hann skoraði reyndar fínt mark á 20. mínútu eftir baráttu við varnarmann Njarðvíkur en Elías dómari féll fyrir falli varnarmannsins og dæmdi markið af, ranglega að okkar mati auðvitað.


Byrjunarlið kvöldsins: Vuk og Osvald komu inn í byrjunarliðið fyrir Ingó (bann) og Edda.

Toni Tipuric skoraði fyrir gestina með skalla erftir hornspyrnu á 32.mínútu. Allt of auðvelt og mikið áhyggjuefni að okkar menn voru ekki meira vakandi þarna. 9 mínútum síðar náði Stefán Birgir að leika á Bjarka inni í teig og komst að endalínunni og uppað Eyjó þar sem hann þrykkti tuðrunni yfir hann í þaknetið. Allt saman of auðvelt fyrir okkar smekk og við á leið í hálfleikshlé tveimur mörkum undir.


Stefán Gísla gerði tvær breytingar á leikmönnum í leikhléi og eina á leikkerfinu. Hann tók þá Gyrði og Hjalta útaf og setti í staðinn Erni og Árna Elvar inná. Nýtt leikkerfi fyrir seinni hálfleik var 4-4-2 þar sem miðjan var þéttuð eins og þurfti bersýnilega að gera.


Okkar menn tóku við sér og voru betri aðilinn heilt yfir í seinni hálfleik en það er erfitt að dæma þar sem gestirnir voru komnir með tveggja marka kodda og þurftu því lítið annað að gera en að treysta á skyndisóknir. Okkar menn lögðu allt í sölurnar og við sáum oft á tíðum fínan bolta frá þeim en það vantaði sárlega gæði í síðasta þriðjungi vallarins og þá sérstaklega í fyrirgjöfum þeirra Kristjáns og Ósvalds. Maður sá minna til Sólons í teignum en maður er vanur og yfir það heila vantaði eitthvað drápseðli inni í teig þeirra Njarðvíkinga.


#7 er það víst núna. Ákveddu þig drengur ;)

Það kom svo á daginn að Sævar Atli sótti fagmannlega vítaspyrnu á allra síðustu mínútum leiksins. Hann klikkaði úr spyrnunni sjálfri en náði frákastinu og slúttaði vel að því sinni. Þannig lauk leikum og okkar menn komnir í virikilega vonda stöðu í deildinni á sama tíma og leikirnir ættu (á pappír) að fara að þyngjast.

Hnetuskel:

Vonbrigði að stígandinn sem um var talað í vor í leik liðsins sé ekki að skila sér inn í tímabilið og Stefán virðist ekki vera búinn að finna sitt sterkasta lið og uppstillingu. Hann þarf að hafa hraðar hendur og ekki hugga sér við stöðuna í deildinni því leikirnir sem við erum búnir að spila áttu að vera auðveldir. Þeir þyngjast bara stöðugt úr þessu og við gætum auðveldlega verið í sömu lífsróðrarstöðu og Magnamenn þegar tímabilið er hálfnað ef hann finnur ekki lausnina bráðlega.


Leiknismaður Leiksins: Stefán Árni

Gæðin drjúpa af drengnum. Hann er greinilega ekki stormsenter heldur heilsteyptari, innflutt útgáfa af Vuk. Hann nýtur sín í nýju treyjunúmeri (#7) upp vinstri kantinn og er ofboðslega flottur með boltann. Hann ógnaði þó markinu ekki nægilega miðað við að okkur sárvantaði mark snemma í seinni hálfleik til að gefa okkur von.


Aðrir Ferskir:

Kristján og Ósvald voru viljugir og duglegir upp kantana en voru arfaslakir í fyrirgjöfum. Ferskir engu að síður. Vuk kom í byrjunarliðið og reyndi að skapa færi með boltann en var langt frá því að vera eins öflugur og hann hafði verið sem varamaður í fyrstu 2 leikjunum. Ákveðin vonbrigði það. Árni Elvar kom öflugur inn í spilið í hálfleik og Ernir líka. Það er þó erfitt að dæma hvort það hafi mögulega verið nýju leikskipulagi að þakka.


Hvað má betur fara?

Ókeypis skallamörk úr föstum leikatriðum eru uppskrift að fallbaráttu. Það er ekki flóknara en það. Ekki myndi skemma fyrir að fleiri en Ingólfur gætu tekið horn án þess að drulla uppá bak. Við fengum fullt af hornum og í yfirgnæfandi meirihluta tilfella hefðum við alveg eins getað fengið meinlaus innköst. Gæðin á síðasta þriðjungi vallarins verða að lagast. Það er klárt. Svo þurfum við að fara að byrja leiki spilandi eins og þeir sem hafa völdin, sérstaklega á heimavelli. Aðra vikuna í röð byrja okkar menn leikinn á því að gefa andstæðinginum frumkvæðið og voru í miklum vandræðum með að komast í takt við leikinn. Þetta leikskipulag minnir um margt á hnefaleikameistara sem er frá upphafi bardagans að leita að rothöggi í staðinn fyrir að setja línuna snemma og draga tennurnar úr andstæðingnum með búkhöggum og útsjónarsemi.


Hvað nú?

Það þýðir ekkert að sykurhúða þá stöðu sem við erum komnir í. Það er Grótta á Seltjarnarnesi næsta föstudag og það er ekkert til lengur sem heitir skyldusigur. Það þarf að núllstilla liðið og gera dauðaleit að því leikkerfi sem ber árangur og gulltryggja að menn berjist fyrst og fremst eins og ljón. Svo koma stigin smátt og smátt. Tækifærið til að gera sumarið áhyggjulaust í hengirúmi með Coronabjór um miðja deild er einfaldlega runnið út í sandinn. Eins og Össi nefndi í upphitunarhlaðvarpi okkar fyrr í mánuðinum getur verið alveg eins spennandi að blóðga sem flesta uppalda leikmenn í hópnum og rétt sleppa við fall þegar upp er staðið. 3.-10.sæti hafa alveg sömu afleiðingarnar. Semsagt engar.


#ÁframLeiknir

182 views0 comments