• Ljón

Eyjó Hættur! Tímamót hjá Leikni

Þær risafréttir bárust úr Austurberginu í gær að Eyjólfur Tómasson, markvörður, fyrirliði og leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi, sé hættur!Það er morgunljóst að við vorum allt of góðu vanir. Tókum manninn sem sjálfsögðum máttarstólpa í árásinni sem áformuð er á Pepsi Max-sæti næsta sumar. Kristján Páll kvaddi liðið í haust og nú er síðasti fastamaðurinn úr síðasta Pepsi-ævintýri horfinn á braut. Þetta eru svo sannarlega stór tímamót og það er ekki hægt að segja að menn séu fullir sjálfstrausts um að hægt verði að leysa þessa stöðu með betri leikmanni.En við skulum ekki dvelja af eigingirni við það hversu mikið högg fyrir væntingarnar þetta er. Eyjólfur hefur gefið félaginu meira en áratug í fremstu röð. Hann hættir í 250 leikjum sléttum ef bara deild og bikar eru talin. Við höfum séð að þetta er næstum því heilsárs verkefni fyrir okkar menn, ár eftir ár og við vitum að enginn lifir á því að spila fyrir félagið okkar til lengri tíma. Það er því ekki sanngjarnt að bera saman okkar menn og atvinnumenn erlendis og jafnvel ekki hér heima í stóru liðum Pepsi-Max deildarinnar. Þetta er vanþakklátt starf fyrir leikmenn og fjölskyldur þeirra þó þetta sé á sama tíma vonandi ofboðslega gefandi.Eins og áður segir er Eyjólfur leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins og hefur þessi staða ekki verið til umræðu fyrir annan leikmann í áratug eða svo. Hann hefur fengið hrós frá mörgum utan félagsins fyrir frammistöðu sína á vellinum og hefði hæglega getað reynt fyrir sér á öðrum vígstöðvum en drengurinn er 111 í gegn og verður það vonandi alltaf.


Við í Ljónavarpinu fengum að kynnast honum aðeins betur fyrir síðasta leiktímabil í hlaðvarpinu og fáum vonandi að kynnast honum enn betur á komandi mánuðum enda er ólíklegt að hann hverfi af vellinum þó að 6 æfingar á viku og ferðalög um allt land séu ekki lengur efst á forgangslista fjölskyldumannsins. Við munum bögga hann reglulega í gömlukallaspjall um hvað hlutirnir voru alltaf mikið betri í "gamla daga" þegar hann var að spila.Við Ljónavarpsmenn viljum hérmeð þakka Eyjólfi fyrir að standa vaktina milli stanganna í öll þessi ár, gefa okkur fullt af ógleymanlegum augnablikum og að vera félaginu ávallt til sóma. Við óskum honum alls hins besta í líf og leik héðan í frá sem hingað til.#BoomBoomBoomThatBoyLooksGood

#ÁframLeiknir

#StoltBreiðholts

52 views0 comments

Recent Posts

See All