Eins stigs sigur

Leiknismenn yfirspiluðu arfaslaka Þórsara á Akureyri í dag en máttu ekki við gerspilltri dómgæslu og fara því heim með tveimur stigum minna en þeir verðskulduðu fyllilega. Þeir sem fylgdu liðinu norður keyrðu þó til baka suður með 6 stig í hjarta því frammistaðan var grjóthörð hjá liðinu okkar sem er ósigrað í seinni umferð og enn að taka þátt í toppbaráttunni.


Strákarnir sendu ástarkveðjur á LykilLeiknisljón sem gekk upp að altarinu í dag. Til hamingju Halldór!

 

Þór 1 - 1 LEIKNIR

1-0 Alvaro Montejo ('27)

1-1 Stefán Árni ('59)

Áhorfendur: 353


skýrslan á .net

skýrslan á KSÍ (sem kunna ekki að úthluta dómurum)

Viðtal við Sigga í lok leiks

Viðtal við Stebba í lok leiks

Viðtal við Gregg Ryder í lok leiks

Viðtal við fyrirliða Þórs í lok leiks


Á meðan margir Reykvíkingar skelltu sér í miðbæinn að skokka maraþon og njóta menningar, leyfðu fjölmargir Leiknismenn sér að taka maraþonferð á sjálfrennireiðum norður til Akureyrar að styðja strákana okkar í lykilbaráttu á toppi deildarinnar í dag gegn Þórsurum. Við misstum af flugeldasýningunni og vöfflukaffinu hjá Degi B. en fengum mikið flottari sýningu á karakter liðsins okkar og jafnvel bestu frammistöðu þeirra í sumar. Sjáum ekki eftir því og erum að springa úr stolti yfir strákunum.


Eftir að Grótta tók 2. sætið af Þórsurum með sigri í gær var viðbúið að gestgjafarnir myndu mæta harðir í þennan leik, staðráðnir í að taka Pepsisætið af þeim til baka. Það vafst ekki fyrir nokkrum manni að þetta var skyldusigur fyrir þá þar sem Grótta mætir neðstu 4 liðunum í síðustu 4 umferðunum. Því kom það nokkuð á óvart að okkar menn tóku öll völd í leiknum frá fyrstu mínútunni. Þórsarar virtust illa undirbúnir og illa stemmdir fyrir ferskt lið Leiknis sem vann öll einvígi og var komið inn í allar sendingar áður en heimamenn vissu hvað var að gerast. Fyrstu 10 mínúturnar voru alger eign okkar manna áður en þeir áttuðu sig.


Þetta var djöfulsins hark en Stebbi var vandanum vaxinn að venju.

Miðað við hvernig fyrri leikurinn í sumar spilaðist var þó hægt að gera sér í hugarlund að þetta væri einmitt sama leikplanið hjá Þórsurum. Að láta gestina hafa frumkvæðið og velja sér svo góðan punkt til að fullnýta mistök í þeirra röðum og refsa með marki. Það var eiginlega nákvæmlega þannig sem það gerðist. Alvaro Montejo reið á vaðið eins og í fyrri leiknum og á svipuðum tíma, nefnilega 27.mínútu. Það er þó varla hægt að segja að hann hafi nýtt sér mistök í okkar röðum heldur verður að teljast eðlilegt að bara yppta öxlum og hrósa því sem vel er gert. Montejo fékk boltann á sig inni í teig eftir klafs og þrátt fyrir að Bjarki væri með hann, náði hann að reiða af skoti sem fór framhjá Eyjó. Þessi maður ætti nánast að vera ólöglegur á þessu leveli. Svo góður er hann. 1-0 fyrir heimamenn og tími fyrir okkur að hafa miklar áhyggjur.


En eins og við vissum er þetta ekki Leiknisliðið frá því í júní. Þetta lið er ekki lengur að spila sig saman. Þetta lið veit nákvæmlega hvað það stendur fyrir og lætur ekki smá bakslag slá sig út af ósigruðu brautinni. Þvert á móti heldur þetta lið áfram af festu og leikgleði og á næstu mínútum voru menn að spila ótrúlega vel með boltann innan liðsins í tugi sendinga áður en heimamenn rönkuðu við sig. Það var einmitt 8 mínútum eftir markið sem einu slíku, löngu spili innan Leiknisliðsins var að ljúka með inngripi Fannars Daða í röðum Þórs sem Bjarki kom aðvífandi á miðjum vallarhelmingi Þórsara með takkana á undan sér en náði í boltann áður en fætur hans og Fannars fóru saman og sá síðarnefndi lá eftir. Ekkert illa meint hjá Bjarka sem renndi sér ekkert og kom ekki af sama krafti og lýsendur á Þór TV vildu meina. Hann var fullur iðrunar og samkenndar en þegar dómari leiksins er uppalinn Þórsari og alræmdur fyrir að setja sig í aðalhlutverk í vinnunni er erfitt að stoppa það sem á eftir kom. Siggi Þrastar vippaði upp beinu rauðu spjaldi á Bjarka okkar eftir stutt samtal við aðstoðardómara sinn og áður en yfir lauk var Valur líka fokinn af bekknum og Eyjó og Hlynur komnir með áminningu í þokkabót.


Þetta bættist ofan á það að þá þegar var orðið nokkuð heitt í stúkunni milli fullorðinna manna vegna dómgæslu og áður en flautað var til hálfleiks var mættur ákaflega illa fyrirkallaður vallarstarfsmaður sem gæti ekki róað niður sofandi ellilífeyrisþega á kannabiskúr, svo illa hélt hann á spilunum. Hann mætti í stúkuna eins og 5 ára barn með hótanir um að taka boltann af öllu svo þeir gætu ekki spilað lengur. "Ég er búinn að fylgjast með þér! Þú getur drullað þér út ef þú hegðar þér ekki" og "Ég ræð, ég er starfsmaður hér!" var gelt að Reykvískum gestum sem voru aldrei líklegir til að grípa til handalögmála þó menn væru ósammála um ágæti dómgæslunnar. Ég, eins og mikið fleiri í stúkunni, get þó fullyrt að tilefni var til að slá á putta heimamanna í stúkunni ef eitthvað var. Þeir voru svipað illa fyrirkallaðir og leikmenn liðs þeirra í upphafi leiks.


En ókey! 1-0 í hálfleik í skyldusigri fyrir Þórsara sem eru á leið í Pepsi og mega engan veginn vera að þessu veseni og við búnir að missa turninn í vörninni okkar. Búið spil og dagsverkið allt í einu orðið að tapa ekki of stórt eða láta Montejo stinga Sævar og Sólon af í markatöflunni. Undirritaður og samferðamaður hans voru farnir að undirbúa sig andlega fyrir 5 tíma akstur heim með skottið fast milli lappanna. En þetta er ekki Leiknislið júnímánaðar. Þetta er Leiknislið Sigga Höskulds. Leiknislið sem hengir ekki haus. Leiknislið sem grípur ekki afsakanir úr loftinu þó það gæti komið sér vel. Þetta er Leiknislið sem á skilið allt okkar hrós og fullan völl heima næsta föstudag þegar Haukar koma í heimsókn. Þvílíkur karakter sem strákarnir sýndu og þjálfarateymið að draga seglin ekki saman og pakka í vörn. Allir sem merktir voru Leikni sýndu hreðjar í dag og uppskáru eftir því. Kannski ekki öll 3 stigin sem hefðu vissulega, hæglega getað endað okkar megin, heldur jafnvel eitthvað verðmætara. Ómælt stolt og aðdáun stuðningsmannanna sem eltu þá norður í dag.


Sólon þurfti að erfiða mikið fyrir liðið í dag. Done! Hljóðalaust!

Það þarf ekkert að fjölyrða um einstök færi og markið glæsilega sem Stjáni og Sólon lögðu upp fyrir Stefán Árna á 59. mínútu. Það þarf hins vegar að tala um það að félag sem þykist ætla að vera að festa sig í sessi meðal bestu liða landsins á þessum tíma að ári, gat ekki leyft sér þann munað að keyra allt í gang og valta yfir sært lið sem var auðveld bráð fyrir rétt rúmum 2 mánuðum. Þórsarar mættu þrjóskum Breiðhyltingum alls staðar á vellinum og í stúkunni. Það verður ekki aftur valtað yfir "þetta lið". Þetta lið ber að virða og varast. Okkar menn voru ekki bara baráttuglaðir, heldur bjuggu til þónokkur færi og sýndu með því að skipta Sævari Atla inn fyrir Vuk eftir markið, að þeir ætluðu ekki að virða stigið fyrr en allt annað væri fullreynt.


Það fór svo á endanum að jafntefli varð niðurstaðan en það voru svo mörg jákvæð teikn á lofti fyrir okkur fram að því. T.d. voru okkar 10 menn búnir að leika heimamenn í örvæntingarfullri leit að 2 stigum í viðbót svo grátt að þeir lágu í valnum með aðeins 5 mínútur til stefnu vegna krampa! Liðið sem ætti að geta haldið boltanum og strítt litla manninum að vild og rota okkur svo. Þvert á móti skokkaði Hjalti Sigurðsson rösklega af velli til að hleypa Ingó Sig inn í aksjón þegar 90 mínútur voru liðnar. Eftir síðasta leik gegn Þór hafði ég orð á því hversu flottir og skipulagðir þeir voru. Hversu augljóst var á líkamstjáningu þeirra að þar færi sterkasta lið deildarinnar sem ætlaði ekki að láta neitt stoppa sig. Í dag var það lið Leiknir. Ef mótið væri 4 leikjum lengra er ég þess fullvis að Sigg og Co. væru að fara með okkur í Pepsi að ári. Það er bara soleiðis!


Hnetuskel:

Þetta var eins mikill eins stiga sigur og hægt er að ímynda sér. Engin heppni, ekkert gott karma. Þetta var bara liðið okkar. Sterkt andlega, líkamlega og ekki síst fullt af hæfileikum til að láta finna fyrir sér. Þetta tímabil er ekki búið og allt getur gerst þegar menn eru svona samstilltir.


Leiknismaður Leiksins: Stefán Árni skorar markið og var aftur uppá sitt besta í spilinu eftir að hafa aðeins misst dampinn gegn Þrótturum. Hann var hávær í peppinu eftir að við lentum undir og að venju agaður til baka þegar við missum boltann. Hann er svo fullur sjálfstrausts og leikni fram á við um þessar mundir að maður er farinn að taka það sem sjálfsagðan hlut að hann sé okkar helsta vopn í uppspilinu.


Aðrir Ferskir:

Allir. Nokkuð bókstaflega. Svo ég nefni bara alla úr byrjunarliðinu nema rauðhettuna. Ósvald var óþreytandi í dag. Hann var einbeittur í vörn og fljótur fram að bjóða krafta sína. Átti nokkrar góðar fyrirgjafir og var 100% með rofann kveiktan í þessum leik. Keep it up! Stjáni var að sama skapi mikill leiðtogi og greinilega fullur sjálfstrausts eftir góðan síðasta leik og stoðsendingu. Hann skautaði upp völlinn og lagði boltann á Sólon fyrir markið okkar en hann var líka bara hávær leiðtogi fyrir liðið allt í fjarveru Bjarka sem hefur verið að taka það svoldið að sér í síðustu leikjum. Nacho var alger lykilleikmaður varnarlega og lét finna fyrir sér þegar uppúr sauð milli liðanna. Mikil lífsgæði í þessum leikmanni fyrir okkur. Hjalti heldur áfram að vera svindlkall sem getur spilað allar stöður vallarins eins og ekkert sé sjálfsagðra. Í dag spilaði hann meginhluta leiksins í stöðu vinstri kantmanns. Hvað er það? Þessi maður var ekki hjá okkur í fyrra en það hefur enginn í liðinu bætt sig eins mikið sem leikmaður og einmitt hann milli 1. leiks og þess 18. í sumar. Gyrðir hefði hæglega getað skorað tvisvar úr sköllum og tryggt okkur öll stigin en hann var líka flottur í að halda boltanum og spila honum til baka. Hann er ekki eins sleipur á boltanum og margir aðrir á miðjunni enda miðvörður í grunninn (og í næsta leik allavega) en hann er alltaf til í baráttuna. Sólon var hættulegur og óheppinn að skora ekki í senn. Hann átti stoðsendinguna okkar en þurfti mikið til að fórna tækifærum fyrir hlaup og varnarvinnu til að halda liðinu á floti í dag. Það leysti hann umhugsunarlaust enda snillingur sem spilar fyrir liðið þó hann geti líka sett´ann. Árni Elvar kláraði leikinn og þá er þónokkuð sagt fyrir þann dreng miðað við þetta sumar. Hann fékk gult snemma leiks og þurfti að passa sig, sem og hann gerði. Hann var óneitanlega í spillivirkjahlutverki hins fjarverandi Ernis Bjarna í þessum leik og leysti það listavel. Vuk var vel liðtækur í flottu spili liðsins en að sama skapi var hann augljós kandídat fyrir fyrstu skiptinguna á 60. mínútu í 10 manna baráttuteyminu okkar. Hann hefur gæðin en vilji hans (og mögulega geta) til að leggja á sig varnarvinnuna þegar með þarf, er óbótavant ef hann vill ná sömu hæðum og t.d. Stefán Árni. Eyjó hefði mátt verja markið en það var varla honum að kenna. Hann var flottur í úthlaupum, yfirvegaður þegar boltanum var iðulega spilað til baka á hann og virtist alveg vera með þau fáu skot sem komu og flugu framhjá markinu.


Hvað má betur fara?:

Dómaraval hjá KSÍ! Aðaldómari leiksins er Akureyringur sem hefur klæðst treyju Þórs. Lýsendur leiksins á YouTube stöð félagsins þekkja hann með gælunafni og hann er frægur fyrir að draga athygli að sér með dómgæslu sinni. Hvernig dettur Knattspyrnusambandi Íslands í hug að það sé í lagi að svona maður dæmi toppbaráttuleik undir lok sumars í næstsefstu deild? Ég vitna í illþolanlegan hlaðvarpsfrasa fótboltasumarsins og segi "STANDARD TAKK"! Ekkert gat betur farið hjá okkar mönnum í spilamennsku annars. Of stoltur til að tuða yfir nokkru.


Hvað nú?:

Nú virðist Siggi vera kominn með liðið á stað sem er áður óþekktur. Sjálfstraust í botni og metnaðurinn líka. Nú gæti hlutverk hans breyst í að hann verði að halda þessu við og missa ekkert niður í vanmat því Haukar í lífróðri mæta í Ghettóið eftir 6 daga og við verðum að hjálpa Magnamönnum um leið og við höldum pressunni á Þórsurum og Gróttu. Eftir daginn í dag verður markmiðið að vera að enda ofar en þetta Akureyrarlið og búa til ríg fyrir næsta sumar. En auðvitað eru okkar menn enn að spila fyrir sig og mikið óskaplega erum við á góðum stað með þetta lið. Áfram gakk!


#StoltBreiðholts

#ÁframLeiknir


176 views0 comments