• Ljón

Bikarsigur og holningin maður!

Á föstudagskvöld fór keppni af stað fyrir þetta sumarið hjá Meistaraflokki með heimsókn Káramanna á Domusnovavöllinn í grenjandi rigningu og leiðindaroki. Þeir tæplega 100 stuðningsmenn sem létu sig hafa það, uppskáru öryggistilfinningu um að framundan sé eitthvað skemmtilegasta sumar í sögu félagsins.

Byrjunarliðið með ótilgreinda uppstillingu

Það þarf ekkert að fjölyrða mikið um leikinn sjálfan. Eftir flottan æfingaleikjasigur gegn Stjörnunni fyrir viku, þá mátti alveg búast við að okkar menn mættu með smá vamat til leiks gegn 2. deildar liðinu af Skaganum en það var ekki snefill af því. Aðstæður voru vondar og ekki píp frá okkar mönnum varðandi það heldur. Bara verkefni fyrir framan þá sem þeir leystu af sinni sérfræðikunnáttu. Einhvern veginn virtist Vélin vera sett í hægri bak við hlið þriggja miðvarða en það skemmtilegasta sem við höfum komist að á síðustu dögum er að það er vonlaust að festa á blað einhverja formlega uppstillingu á þetta lið. Leikskipulagið er að virka og allir þekkja sitt hlutverk. Það er, annan leikinn í röð, eins og við séum að horfa á lið sem er búið að fá tvö undirbúningstímabil til að spila sig saman, ekki eitt meingallað svoleiðis.


Strákarnir vörðust, börðust og sóttu hratt þegar tækifæri var til. Mörkin komu svo óumflýjanlega en metnaðurinn um að halda hreinu hélt og landað var 5-0 sigri sem setur tímabilið af stað á ákaflega jákvæðum og sterkum nótum. Aðeins tveir leikmenn í byrjunarliði höfðu ekki spilað keppnisleik fyrir Meistaraflokk Leiknis áður. Það voru þeir Máni Austmann og Viktor Freyr í markinu. Máni skoraði fyrsta mark leiksins og var til vandræða fyrir gestina allan leikinn. Hann minnti um margt á góðvin okkar Stefán Árna sem við sáum svo eftir í haust. Söknuðurinn ætti að hverfa fyrir fullt og allt fyrir næstu mánaðmót ef Máni heldur áfram í þessum ham.


Haukur Gunnarsson
Mynd eftir Hauk Gunnarsson

Viktor Freyr var flottur milli stanganna og ef hann helst heill, þá þarf ekki að örvænta með hann á bekknum bakvið Smitarann þetta sumarið. Binni Hlö var í miðverði eins og Össi hafði bent á að væri líklegt hlutskipti hans í sumar. Leysti það eins og ekkert væri sjálfsagðra. Að sama skapi kom Bjarki inn eins og herforinginn sem Össi lofaði að hann væri þegar flautað yrði til keppnisleiks. Miklar væntingar eru gerðar til Danna Finns sem svaraði kallinu með þrennu í leiknum og ef við héldum að við værum að setja hann upp við vegg með svoleiðis, þá voru þær áhyggjur óþarfar því fyrirliðinn sjálfur lofaði því að æskuvinurinn yrði "ógeðslega góður í sumar". Sjá viðtalið við .net hér: https://fotbolti.net/news/12-06-2020/saevar-atli-danni-finns-er-ogedslega-godur-i-fotbolta Það fer bara ekkert milli mála að hér erum við með mjög sterkan hóp leikmanna sem allir þekkja sitt hlutverk og leikskipulag. Allir tala saman og hafa gaman. Það er erfitt að setja fram eitt sterkt 11 manna byrjunarlið því ca. 30 misumandi uppstillingar ættu að duga okkur til sigurs gegn öllum Lengjudeildarliðum og stemningin í hópnum virðist vera á þann veg að við hittum ekkert á næstunni á einhvern andlausan leik þar sem menn fá skell. Á þá kenningu reynir reyndar strax næsta föstudag þegar við mætum í Laugardal gegn Þrótti þar sem við fengum vonda útreið síðasta sumar nokkuð snemma á tímabilinu. Nokkrir leikmenn eiga harma að hefna frá þeim leik og góður sigur kæmi sér vel til að byrja deildarkeppnina þetta árið. Eftir leik var haldin Leikmannakynning í félagsheimilinu og ræða frá þjálfaranum. Það var ekki teygt lopann með því að troða strákunum aftur í þurrar treyjur og kynna þá einn af öðrum inn í salinn heldur hentu þeir sér allir upp stigann og yfir salinn og voru kynntir á innan við 10 mínútum áður en Siggi tilkynnti stuðningsmönnum að markmið sumarsins væri að spila í næstu deild fyrir ofan að ári. Einfalt og gott og allir með Gameface, klárir í slaginn. Þetta er þeirra verkefni sem þeir hafa lagt mikið á sig til að undirbúa og það þarf ekkert að sýna neina auðmýkt eða mana sig upp í neitt. Maður fékk á tilfinninguna að meginþorri hópsins ætti bara að fá að drífa sig heim að drekka Gatorade og fara svo í nudd á laugardagsmorgun eða gera hvað sem Siggi og þjálfarateymið er búið að segja þeim að gera.


Mynd eftir Hauk Gunnarsson

Það er eitthvað einstakt framundan hjá okkur í sumar. Það hefur verið í býgerð í marga mánuði og er niðurstaða reynslu og fyrirhyggju frá öllum sem koma að málum hjá félaginu. Þó einhverjir séu að bætast í hópinn rétt fyrir kick-off, var hópurinn að mestu klár fyrir lok síðasta árs og planið fyrir sumarið löngu ákveðið. Það er hlutverk stuðningsmanna að hlaupa framúr sér og lýsa yfir að við erum búnir að vinna deild og bikar áður en 1 leikur í deild er flautaður á en undirritaður hefur 100% trú á að Siggi og strákarnir nái að hundsa það og láta verkin sín tala sínu máli. Bring on Þróttur R.


#OperationPepsiMax

#StoltBreiðholts

#HverfiðKallar

94 views0 comments