Bikarævintýrið 2017

Nú þegar bikarúrslitaleikurinn 2019 er að nelgast niður með undanúrslitaleikjum milli FH, KR, Víkings R. og Breiðabliks, er gaman að rifja það upp að litla liðið úr 111 var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti á Laugardalsvelli fyrir ekki nema tveimur árum síðan. Sturluð staðreynd sem virðist fara nokkuð lítið fyrir meðal okkar stuðningsmanna.

 

Stutt stopp en fullt af minningum

Kristófer Sigurgeirsson stoppaði stutt við sem aðalþjálfari meistarflokks Leiknis eða aðeins rúmlega eitt sumar og hefur arfleið hans verið nokkuð neikvæð í umræðunni eins og hann hafi misst allt niðrum sig í byrjun síðasta sumars og óumflýjanlega þurft að yfirgefa stöðuna.


En það eru ekki allir sem geta stært sig af því að hafa komið Leikni í undanúrslit Bikarkeppninnar og það á sínu fyrsta tímabili. Reyndar hefur enginn getað stært sig af því í sögu félagsins. Það er því enn furðulegra að tveimur árum síðar er þetta afrek nánast gleymt. Honum tókst þetta með hóp sem var ekki að gera neinar gloríur í Inkasso deildinni það tímabil eða tímabilið á undan. Það má jafnvel deila um það að félagið hafi enn verið með timburmenn eftir Pepsi ævintýrið sem hafði þó verið dautt og grafið í 18 mánuði þegar hér kemur við sögu.


Það má jafnvel segja að Kristófer hafi verið reset-takkinn sem þurfti til að gleyma ævintýrinu 2015 og fara að byggja upp fyrir næstu atlögu að því að fara aftur upp. Sumarið 2016, undir stjórn Kristjáns Guðmundssonar, voru stuðningsmenn og jafnvel félagið í heild með veika von um að ná að troða sér aftur upp í Pepsi og tímabilið fjaraði út í vonbrigði og leiðindi þegar sú von rann út í sandinn.


Það voru engar slíkar óraunhæfar væntingar þegar boltinn byrjaði að rúlla með hinum geðþekka Kristófer í stjórastólnum. Dagsskipunin gæti hafa verið að finna bara gleðina í boltanum aftur. Það tókst og fengum við samhliða því að sigla lygnan sjó í Inkasso (enduðum í 5.sæti), þetta flotta Bikarævintýr sem við ætlum að rifja aðeins upp hérmeð:


Í 64-liða úrslitum mættu okkar menn til Selfoss á Jáverk völlinn og slátruðu Stokkseyri 0-5 þar sem Kolbeinn Kára skoraði 2 mörk og Aron Fuego okkar rak smiðshöggið með 5. markinu. Skyldusigur sem unninn var fyrir framan heila 25 áhorfendur þann 29. apríl.


Næstu andstæðingar voru Þróttarar frá Reykjavík og vannst sá leikur 2-1 en þessi leikur var furðulegur fyrir aðrar sakir en bara þær að Kolbeinn Kára var kominn í gang og skoraði sigurmarkið 5 mínútum fyrir leikslok. Þetta var nefnilega leikurinn þar sem Hr. Leiknir, Ólafur Hrannar Kristjánsson, mætti á Leiknisvöll sem andstæðingur í fyrsta sinn. Hann skipti yfir í Þrótt daginn fyrir leikinn og kom af bekknum í einhverjar súrealískustu 10 mínútur sem stuðningsmenn félagsins hafa upplifað á okkar heimavelli. Valur Gunnarsson tók hann tali eftir leikinn og er ekki laust við að hann hafi verið í nokkurri geðshræringu svona rauðklæddur og sigraður. Maður leiksins var þó lítill gikkur með hor úr 2. flokki sem þóttist ætla að taka við af Óla Hrannari sem Hr. Leiknir. Gott ef honum sé ekki loksins að takast það ætlunarverk sitt í þessum töluðu orðum.


En það var áfram gakk fyrir stórveldið úr 111 og eftir sigur á Þrótturum var hægt að byrja að taka þessa keppni alvarlega en einhvern veginn var aldrei almennilega gert það. Það var ekki eins og liðið hætti að reyna að standa sig í Inkasso til að einbeita sér að þessu ævintýri í uppsiglingu. Máske undir lok þess en alls ekki fyrr en á Kaplakrika var komið.Næstir voru Grindvíkingar á Leiknisvelli þann 1. júní í 16 liða úrslitum. Þeir voru þá í 2. sæti í Pepsideildinni og enduðu þeir tímabilið í 5. sæti svo um var að ræða alvöru andstæðing og tækifæri fyrir okkar menn að máta sig gegn svoleiðis. Eftir venjulegan leiktíma var jafnt 1-1 eftir að Ósvald Jarl Traustason nokkur hafði jafnað með marki í seinni hálfleik. Framlengt var og svo skelltum við okkur í vítaspyrnukeppni til að útkljá þetta en þar varði Eyjó í tvígang til að klára málið. Halldór Kristinn Halldórsson, miðvörðurinn knái, var til tals við Val Gunnars að leik loknum og var kokhreystið uppmálað.


Aftur fengum við heimaleik í 8-liða úrslitum. Það var þó á móti erfiðum Skagamönnum sem hafa oft verið þyrnir í síðu okkar. Þeir voru þegar þarna kom við sögu í fallbaráttu úr Pepsideild sem þeir áttu eftir að tapa eins og þessum leik. Þeir skoruðu reyndar eina mark fyrri hálfleiks en það var í eigin mark og því þurfti Garðar Gunnlaugs, stormsenter að koma þeim inn í leikinn með víti áður en Elvar Páll sigraði leikinn fyrir Breiðholtsstórveldið í 6. mínútu framlengingarinnar og þar við sat. LEIKNIR REYKJAVÍK komnir í undanúrslit Borgunarbikarsins og Kristófer að springa úr gleði í spjalli við engan annan en Val Gunnarsson eftir leik! Sigurmarkaskorarinn var ekki minna spenntur í spjalli við sama mann.


Þá var það létt verk og löðurmannlegt í undanúrslitum. Íslandsmeistarar FH í Kaplakrika! Ekki bætti úr skák að lykilmennirnir Halldór Kristinn, Kristján Páll og Binni Hlö voru í leikbanni í þessum leik ofan á það að þarna var Elvar Páll búinn að brjóta á sér ökklann. Það var ekki laust við að drátturinn hafi slegið menn niður á jörðina enda ekki líklegt að lið sem var að ströggla í Inkasso gæti klárað þessa fagmenn. En þeir voru sjálfir að ströggla í sinni deild og áttu eftir að tapa Íslandsmeistartitlinum til Valsmanna sælla minninga svo það gæti verið að þeir væru veikir fyrir einhvers staðar. Í ofanálag voru þeir í miðju Evrópukeppniseinvígi svo ef til vill bara fullkominn tími til að mæta þeim.Skemmst er frá því að segja að Leiknismenn börðust alls staðar á vellinum eins og berserkir. Betra liðið hélt boltanum að sjálfsögðu meira en náðu sáralítið að skapa í teig okkar manna og stefndi allt í framlengingu og allt það þegar helvítið af honum, Steven Lennon, tók þetta bara í sínar hendur í uppbótartíma og hnoðaði boltanum yfir línuna. Sannkallað "flautumark" og allt bú! Ævintýrið úti en þvílíkur endemiseldmóður í leik sem fyrirfram hefði mátt búast við að maður gæti pakkað saman í hálfleik ef á versta veg færi. Leiknismenn búnir að finna stoltið og fá smá smjörþef af því hvernig lífið var meðal þeirra bestu aftur. Nú skyldi byggt á þessu næsta sumarið með King Kristó í brúnni. Eða hvað?


Eins og við vitum fór ekki svo og Kristó var fokinn eftir 3 deildarleiki sumarið 2018. Það eru ýmsar kenningar uppi um ástæðurnar fyrir utan slappa byrjun en það fór sem fór og nú eru nýir tímar. En það verður aldrei tekið af þessum manni að hann tók okkur á svakalega rússíbanareið sumarið 2017. Takk fyrir það (næstum því Bikar)meistari!P.S. FH-ingar skitu svo uppá baka í úrslitum gegn ÍBV og hefðu alveg eins getað látið okkur um að kála Eyjaskeggjum.


Viðtal við Heimi Guðjóns eftir undanúrslitaleikinn

Viðtal við Steven motherfokking Lennon

119 views0 comments

Recent Posts

See All