Allt samkvæmt áætlun núna

Updated: Jun 1, 2019

Sterkir Víkingar frá Ólafsvík fóru niðurlútir af Leiknisvelli með núll stig í pokanum og ákaflega lítið til að fagna á meðan okkar menn sýndu fagmannlegan leik þar sem þeir héldu hreinu í fyrsta sinn í sumar og virtust hafa kortlagt gestina upp á 10 frá fyrsta sparki.

 

Leiknir 2 - 0 Víkingur Ó. 1-0 Sólon Breki Leifsson '60 2-0 Nacho Heras '70

Áhorfendur: 197


Grjóthart gameface hjá okkar mönnum fyrir leik

Nú er gaman hjá okkur. Þetta var reyndar allt annar leikur en síðasta föstudag. Það var ekkert drama í kvöld. Þetta var uppskera alls þess sem nýji þjálfarinn okkar lofaði í fyrsta Ljónavarpinu í mars. Þetta var yfirvegunin uppmáluð, baráttan í góðu lagi og andstæðingurinn fékk ekki að þvinga sínum leik uppá okkur. Með þessu áframhaldi siglum við lygnan sjó það sem eftir er sumars og náum að stríða stóru liðunum í deildinni sem ætla sér upp.


Skýrslan á .net

Skýrslan á KSÍ

Viðtal við Stebba Gísla eftir leik

Viðtal við Nacho eftir leik

Viðtal við Ejub eftir leik

Leikdagur á Instagram Story


Eftir góðan sigur á Seltjarnarnesi síðasta föstudag var það smá erfiðleikum háð að spá fyrir um þennan leik enda um eitt af sterkustu liðum deildarinnar að ræða sem hefur farið vel af stað í ár með sterka vörn og hættulega sóknarburði. Eftir allt var vörnin okkar enn að leka mörkum og sigurinn gegn Gróttu var kaflaskiptur og lokamínúturnar hefðu hæglega getað kostað okkur 2 stig. Í kvöld mætt allt annað lið til leiks.


Stebbi Gísla hélt áfram að hræra í byrjunarliðinu og misstu þeir Sævar Atli og Gyrðir byrjunarliðssæti sín fyrir Sólon og Ingó Sig. Þeir Ernir og Árni Elvar voru afturliggjandi miðjumennirnir og Ernir sá sem lagðist í miðvörðinn þegar bakverðirnir tóku vaktina í sóknarleiknum. Það er skemmst frá því að segja að þetta svínvirkaði allt saman.


Farsímamyndirnar af innköstum úr stúkunni eru listaverk (staðfest)

Strax á 12. mínútu skoraði Nacho mark eftir flotta fyrirgjöf Ingós en það var dæmt af vegna rangstöðu sem skv. sjónvarpsútsendingu var rangur dómur. Maður hefði ekki álasað strákunum fyrir að verða fyrir ákveðnu spennufalli við þetta en þeir héldu algerlega haus og héldu áfram að sækja eins mikið og skeinuhætt lið gestanna leyfði. Sem var nokkuð mikið bara. Stefán Árni, sirka hálfu kílói af hárlokkum léttari en síðasta föstudag, hélt áfram að skauta upp og niður vinstri kantinn og valda hausverk fyrir Víkingana. Hann féll til að ég held þrisvar sinnum í teig Víkinga eftir flott spil og uppskar eitt gult spjald áður en fyrri hálfleik lauk. Hann fór svo í vanhugsaða tæklingu stuttu fyrir leikhlé og Stebbi Gísla tók hann útaf í hálfleik og setti Sævar Atla inná í staðinn, líklegast vegna skaphitans...eða þá að hann sé brjálaður yfir klippingunni. Í það minnsta virtist hann ekki hafa meiðst í fyrri hálfleik.


Það var virkilega gaman að sjá okkar menn stjórna takti leiksins að mestu og pirra gestina sem héldu greinilega að þeir gætu hægt og rólega yfirbugað heimamenn. Eina stóra hættan í fyrri hálfleik hafði verið þegar Nacho þurfti einn aftastur að taka á honum stóra sínum og hreinsa frá þegar Martin Kuittnen var við það að komast í gegn. Sá var sprækastur í liði gestanna án þess að Eyjó hafi þurft að hafa of miklar áhyggjur.


Leiknismenn byrjuðu seinni hálfleik með Sævar inná í stað Stebba í stillingunni 4-4-2 með Vuk á vinstri kanti og Ingó útá hægri. Gestirnir náðu að pressa smá fyrstu mínúturnar en það er ekki hægt að segja að okkar menn hafi nokkurn tíma lent undir þungri pressu eða misst tökin á leiknum. Og svo kom Sólon! Þvílíkt gæðamark hjá honum á 60.mínútu. Hann sótti boltann næstum því alveg niður á miðju, snéri af sér varnarmann og annan og reiddi svo af þrususkoti í netið. Einfalt og rosalega Sólon! Það var verður að segjast. Hann hafði ekki séð mikið af gæðatækifærum fram að þessu en að venju búinn að pönkast fullt í Ólsurum fram að þessu og uppskar þetta einstaklingsmark.


Mynd tekin af Twitter félagins @LeiknirRvkFC

Það heftur oft verið venjan hjá Leikni að gefa frumkvæðið svoldið frá sér eftir að skora mörk, sérstaklega gegn sterkum liðum. Það var sennilega mest ánægjulegi hlutur leiksins í kvöld að svo fór ekki að þessu sinni. Menn héldu áfram að loka svæðum, tala saman og sækja í stað þess að bogna niður fyrir miðju. Eitt mark var ólíklegt til að duga til miðað við tímabilið fram að þessu.


Á 71. mínútu sendi Ingó aukaspyrnu inn í teig sem Nacho afgreiddi með skalla á fjærstöng og þar með kom 2. markið sem róaði taugar stuðningsmanna og líklega leikmanna líka. Ingó var tekinn af velli strax eftir markið og Daði Bærings leysti hann af hólmi.


Það er skemmst frá því að segja að aftur héldu okkar menn haus og bökkuðu nánast ekkert eftir að 2 marka púðinn var kominn. Að sama skapi voru þeir ekki að sækja af neinu ábyrgðarleysi. Þeir sigldu þessum sigri í höfn af fagmennskunni sem við höfum beðið eftir. Virkilega ánægjulegt að sjá þessi þroskamerki í leik liðsins.


Hnetuskel:

Hreint lak, 2 mörk, þrjú stig og ekkert drama. Það gerist ekki betra. Takk strákar!

Leiknismaður Leiksins: Nacho Heras:

Þetta var val stuðningsmanna á Twitter og það er ekki hægt að þræta fyrir það. Spánverjinn knái skoraði tvö lögleg mörk, fékk eitt og át flest allt sem kom inní teiginn gegn sínum gömlu félögum. Hann er búinn að sanna sig strax í röndum Breiðholtsstórveldisins.


Aðrir Ferskir:

Aðra vikuna í röð voru flestir í þessum flokki. Það var enginn lélegur í liðinu, svo mikið er víst. Þetta var öðruvísi leikur en allir virtust vera að skila sínu hlutverki vel og leikplanið gekk upp að því er virðist. Markið frá Sólon var mikilvægt (og glæsilegt) og hann virðist alltaf óþreytandi í að lýja andstæðingana þó að hann vaði ekki í færum í hverri viku. Ég ítreka að ef við hefðum haft mann eins og hann í hóp í staðinn fyrir Kolbein Kára sumarið 2015, þá værum við jafnvel enn í Pepsideild. Það var ánægjulegt að sjá Ingó aftur í byrjunarliðinu og hann hafði fullt með föstu leikatriðin að gera og var alltaf leitandi framávið. Virkilega skemmtileg samkeppni í gangi með pláss í byrjunarliðinu. Vuk var sprækur fram á við og kom fínt til baka líka að létta á varnaleik liðsins. Bjarki var flottur með Nacho og þeir stigu ekki feilspor saman í vörninni sem var alger forsenda þess að sigla þessu í höfn. Sævar Atli kom ferskur inn fyrir Stefán Árna og var nálægt því að skora flottasta mark ferils síns þegar hann lék á varnarmann Ólsara og setti boltann réttsvo framhjá markinu. Það verður enginn þristaður í kvöld. Langt í frá.

Hvað má betur fara?

Eins og gamalreyndur Leiknismaður í stúkunni sagði, þá hefði Eyjó mátt fá boltann aðeins meira. Hann hafði ekki svo mikið að gera, allavega ekki í fyrri hálfleik. En það er svosem ekkert sem truflar hann eða okkur í svona leik.


Svo hefði mætingin mátt vera töluvert betri hjá stuðningsmönnum. Það þýðir ekkert að væla yfir því enda eru lesendur þessarar síðu og fylgjendur Ljónavarpsins í hópi þeirra sem mæta best á völlinn. Umgjörðin hefur verið stórbætt og þetta verður að hafa sinn gang en leikurinn var í beinni á Stöð 2 Sport og það var kaldara en spáð var um. Vonandi lokkar staðan í deildinni fleiri að í næstu leikjum.


Hvað nú?

Þetta er öðruvísi tilfinning en síðasta föstudag. Gróttu-leikurinn var spennufall en þessi leikur var einhvers konar statement gagnvart Víkingum og hinum sem þykjast ætla að sigra þessa deild. Þetta var svo fagmannlega að verki staðið að maður fer rólegri inn í helgina en maður bjóst við. Næst er það Þróttur í Laugardalnum næsta föstudag. Við mætum þangað og hjálpum strákunum að halda þeim fyrir neða okkur í töflunni. Meira svona, alla daga!


Góða helgi!


128 views0 comments