2. flokkur kláraði Framara

Í kvöld mættu litlu strákarnir okkar í 2. flokki, sterku liði Framara, og uppskáru góðan 1-0 baráttusigur á Leiknisvelli og tóku þarmeð 4. sæti B-deildar af gestunum með 3 leiki eftir á tímabilinu.


Lærisveinar Heiðars Geirs áttu ekkert í okkar menn

Skýrsla Leiksins hjá KSÍ


Þessi stutta umfjöllun er skrifuð með þeim fyrirvara að undirritaður hefur ekki séð einn leik í 2. flokki nokkurs liðs á ævinni. Að því sögðu var um að ræða flotta skemmtun sem óhætt er að mæla með.


Í liðinu voru tvö kunnugleg andlit í Danna Finns á miðjunni og Viktor Marel í fremstu víglínu. Þá voru þeir Shkelzen Veseli og Andi Hoti komnir í aksjón eftir bekkjarsetu með meistaraflokki í hitaleik fyrir norðan á laugardag.


Leikurinn byrjaði með nokkrum yfirburðum okkar manna. Þeir spiluðu vel á milli sín og voru ferskir. Það skein þó af Danna Finns sem er, eins og við vitum, orðinn meistaraflokksleikmaður með rentu. Hann stýrði spilinu af yfirvegun á miðjunni og spreyjaði boltanum að vild ásamt því að reyna á markmann gestanna reglulega og reyndar líka á rammann sem rétt stóð það af sér.


Markið kom svo á 24. mínútu eða svo (engin vallaklukka fyrir litlu mennina) þegar Viktor Marel komst í gegn inn í teig, mögulega með hjálp handleggs en við kvörtum ekki, og setti boltann af harðfylgi í markið. Hans 6. mark í 12 leikjum fyrir 2. flokk í sumar. Hann var hættulegur í allt kvöld en fékk aldrei svona mikið dauðafæri það sem eftir lifði leiks. Þeir sem hafa séð hann koma inná til að klára leiki með Meistaraflokki geta alveg ímyndað sér hvernig hann var í kvöld. Síhlaupandi og að reyna að sigra rangstöðugildruna. Flottur.


Annars var gaman sjá Shkelzen í aksjón að reyna að skapa hluti fram á við og Róbert fyrirliða (sem var ekki með fyrirliðaband sýndist mér) berjast eftir markið. Það var ýmislegt flott í gangi hjá okkar drengjum og framtíðin greinilega björt. Framarar voru nokkuð hugmyndasnauðir fram á við og ógnuðu marki okkar manna ákaflega takmarkað. Þeir létu allt fara í taugarnar á sér á meðan okkar menn önduðu, að mestu, með nefinu.


Seinni hálfleikur var frekar litlaus sem virtist henta okkar mönnum nokkuð vel. Framarar stunduðu háloftabolta sem varnarlína Leiknis hló að um leið og hún skallaði frá en það hljóp ekkert raunverulegt líf í leikinn fyrr en kannski síðustu tíu mínúturnar fyrir lokaflautið. Annar hreini skjöldur sumarsins staðreynd (reyndar annar í síðustu 3 leikjum líka) og það kæmi mér ekkert á óvart að ég myndi poppa upp í Kórnum í næstu viku að fylgjast aftur með þessum efnilegu drengjum. Svona ef það er ekkert nýtt að gerast á Netflix :)


En hvað segja lesendur? Eigum við að reyna að auka umfjöllun um 2. flokk? Jafnvel fá einhverja í podcast-upptökur?

73 views0 comments