Þrjú stig, hornasir og bros út að eyrum

Það voru hæstánægðir stuðningsmenn Leiknis sem settu hitamiðstöðina á fullt í bílnum á leið heim frá Blásvöllum í kvöld eftir flottan 1-2 sigur okkar manna.

 

Haukar 1 - 2 LEIKNIR

1-0 Sean De Silva (7´)

1-1 Sævar Atli (34´)

1-2 Gyrðir (80´)

Áhorfendur: 125 manns


Þrátt fyrir nokkuð meiri vind en við höfum vanist í sumar og ömurlega umgjörð á Ásvöllum þar sem ekki einu sinni var hægt að fjárfesta í hamborgara, var virkilega gaman að sjá mikið breytt lið Leiknis ná sér á strik eftir hikst snemma leiks og þetta skrifast klárlega sem karakterbyggjandi sigur fyrir okkar menn.


Mikið breytt byrjunarlið og uppstilling í kvöld

Skýrslan á .net

Skýrslan á KSÍ

Viðtal við Stebba Gísla í lok leiks

Viðtal við Búa þjálfara Hauka í lok leiks

Leikurinn í heild sinni á hinu alræmda Haukar TV

MyStory á Instagram með mörkunum og "ekki" markinu hans Sólons ofl


Stebbi Gísla henti í bombu fyrir leik með því að breyta uppstillingunni og liðsvalinu umfram það sem hann var neyddur til vegna meiðsla. Nacho Heras, Árni Elvar og Stefán Árni voru frá auk þess að Ingó var á bekknum og ólíklegur til að geta lagt til meira en 10 mínútur í leiknum. En Sólon missti sæti sitt fyrir Viktor Marel Kærnested í framlínunni líka. Danni Finns kom inn á miðjunni og Gyrðir var færður í djúpliggjandi miðjumann á meðan Eddi kom inn í miðvörðinn eftir að hafa ekkert komið við sögu í yfir mánuð síðan hann var í vinstri bak í byrjun tímabils. Uppstillingin var líka þannig að liðið var í raun án kantmanna með Vuk efstan í tígulmiðju. Það var því ljóst að mikið myndi mæða á þeim Ósvaldi og Hjalta í bakvarðarstöðunni.


Það voru skiptar skoðanir um þessa uppstillingu og leikmannaval í stúkunni en að sjálfsögðu tökum við ofan fyrir stjóranum að sýna hreðjar eftir tvö slæm töp í röð og þiggjum auðmjúk stigin þrjú. Þetta byrjunarlið var með meðalaldurinn 21 ár þrátt fyrir að þurfa að bera aldraðan 30 ára ónefndan fyrirliða í markinu.


Með svona miklar breytingar og nokkra óreynda í liðinu var viðbúið að það væri smá skjálfti í mönnum í byrjun leiks og það varð rauninn. Fyrsta mark leiksins kom á 7. mínútu eftir vandræðagang inni í teig okkar manna sem Sean De Silva batt einfaldan endi á með því að smella boltanum í markið af sannfæringu. Kjaftshögg og það hefði ekki komið á óvart að menn hefðu hengt haus þriðja leikinn í röð en eftir smá krafs náðu strákarnir okkar vopnum sínum og byrjuðu að taka leikinn yfir um miðjan fyrri hálfleikinn.


Það var svo á 34.mínútu sem vond mistök í vörn heimamanna urðu til þess að Sævar Atli komst í boltann og valhoppaði með hann upp að teig, spilaði sig meðfram vörninni þartil hann fann glufu og setti hann sáraeinfalt í markið af einstakri snyrtimennsku. Gullstráknum var mikið létt við þetta og það leit út fyrir að markaleysi síðustu leikja hafi legið þungt á honum. Það var aldrei spurning í huga stuðningsmanna að mörkin færu að detta inn hvað og hverju.


Fengum gjallarhornið til baka eftir meiðsli í kvöld.

Eftir þetta jöfnunarmark komst meiri ró yfir spil okkar manna sem voru þó langt frá því að vera fullkomnir og óskeikulir í spili sínu. Menn voru enn að átta sig á hlutverkum sínum og hversu hátt ætti að halda línunni eftir tvo skelli í síðustu leikjum. Jafnt í hálfleik og miðað við síðustu tvo leiki var tilefni fyrir fólkið í stúkunni að nagla neglur og búast við því versta enda hafa menn ekki komið allt of vel stemmdir til leiks eftir hlé nýverið.


Þær áhyggjur voru óþarfar. Okkar menn voru sterkari aðilinn allan seinni hálfleikinn án þess þó að vera pottþéttir og gefa engin færi á sér. Þetta var basl á tíðum en menn voru samstíga og töluðu sig saman þegar á þurfti að halda. Eyjó var svo öruggur í rammanum þegar heimamenn náðu að mjakast áfram í teignum. Sólon og Daði komu inná fyrir Viktor Marel og Danna Finns eftir 15 mínútna leik í seinni hálfleik. Það frískaði uppá leik Leiknis án þess að þeir sem af velli fóru hafi verið lélegir. Þeir komu þvert á móti nokkuð skemmtilega á óvart eftir að hafa lítið komið við sögu hingað til.


12 mínútum eftir að hann kom inná átti Sólon skot og mark (staðfest í Instagram Story @Ljonavarpid) með viðstöðulausu skoti sláin inn eftir fallega sendingu í gegn frá Gyrði. Aðstoðardómarinn sá þetta ekki og sóknin fjaraði svo út. Sem betur fór kláraðist leikurinn með marki 10 mínútum síðar þegar Gyrðir og Bjarki tóku sóknarleikinn í eigin hendur og tækluðu dæmið. Daði hafði átt aukaspyrnu sem var hreinsuð frá en Hjalti sendi boltann langt til baka upp að teig þar sem Bjarki skallaði hann í gegn og Gyrðir náði að koma fætinum fyrir boltann með markvörðinn askvaðandi að sér. Fyrrverandi KR-ingurinn heldur betur að stimpla sig inn þarna og búinn að ógna nokkrum sinnum með kollinum úr föstum leikatriðum í þessum leik og öðrum hingað til í Inkasso.


Eftir þetta náðu okkar menn að mestu að spila leiknum í örugga höfn sem varð töluvert auðveldara þegar Sean De Silva slengdi handleggnum í andlitið á Gyrði og fékk sitt annað gula spjald að launum. 3 stig í sarpinn og allir sáttir með að þurfa ekki að heimsækja þetta rokrassgat aftur í sumar.

Snýtum okkur og hlýjum undir sæng í nótt. Vöknum sátt á lygnum sjó um miðja deild á morgun.

Hnetuskel:

Þetta var, eins og áður segir, karaktersigur fyrir okkar ungu menn og þrjú mikilvæg stig fyrir lokasprett fyrri umferðar deildarinnar. Hefði þessi leikur tapast værum við núna að horfa á fallbaráttusúpu þar sem við værum jafnir Aftureldingu og Haukum með fallsæti í rassgatinu á okkur. Í staðinn siglum við upp í 5. sæti um sinn og endum helgina í versta falli í 7. sæti. Þetta var ekki yfirburðarsigur með öll okkar vandamál úr sögunni. Langt í frá. En eftir tvo skelli var mikilvægt að sjá okkar menn einfaldlega klára sig og byrja að skora aftur. Sérstaklega án lykilmanna sem berjast nú við meiðsli. Því ber að fagna og áfram gakk.


Gyrðir kom út að leika í kvöld og er maður leiksins

Leiknismaður Leiksins: Gyrðir Hrafn

Gyrðir kemur í raðir Leiknis frá KR og mikið var talað um styrk hans á undirbúningstímabilinu. Alinn upp í miðverði en hefur verið mestmegnis á miðjunni hjá Leikni, fallandi í vörn þegar bakverðir sækja hratt. Í kvöld small allt fyrir hann í afturliggjandi miðjuhlutverkinu. Hann gerði mistök í sendingum eins og aðrir og var óstyrkur á köflum og ranna reyndar mikið til í fyrri hálfleik á vel vökvuðum vellinum en það skiptir máli að hann skoraði sigurmarkið og var búinn að gefa stoðsendingu í marki Sólons sem var dæmt af vegna afglapa dómarans. Var svo fastur fyrir þegar De Silva smellti handleggnum í smettið á honum. Þetta var vonandi svokallað "coming out" partý fyrir þennan öfluga leikmann í okkar röðum. Eitthvað til að byggja á í næsta leik.


Aðrir Ferskir:

Sævar Atli stríddi heimamönnum eins og hann gerir gegn öllum andstæðingum og náði að kóróna góða frammistöðu með verðskulduðu og smekklegu marki. Ákaflega ánægjulegt að sjá og vonandi fer hann kokhraustur inn í næsta leik. Hjalti var aftur öruggur í hægri bakverði og vil ég ekki sjá hann aftur á miðjunni. Finnst hann taka góðar ákvarðanir og hefur mjög góða sendingagetu yfir á vinstri vænginn til að brjóta upp leik andstæðinganna. Þær rata ekki alltaf á samherja en geta skapað mikinn usla þegar þær gera það. Vuk vaknaði nokkuð til lífsins í þessum leik í hlutverki tíunnar í þetta sinn. Það kom vel út þó hann hafi ekki komist í dauðafæri. Ernir var enn eina ferðina mikilvægur í miðjuspili Leiknis en þó aðallega í að taka gáfulegar ákvarðanir í því að hægja á leik andstæðinganna. Hann er lykilmaður í þessu liði síðan hann komst inn í byrjunarliðið aftur og ég vil sjá hann skrifa undir 2 ár í viðbót áður en tímabilið verður hálfnað. Ef mönnum er alvara með að byggja í átt að Pepsi á næstu árum er þetta okkar maður á miðjunni.

Hvað má betur fara?

Það er ennþá stöðugleikinn. Hafa trú á verkefninu frá fyrstu mínútu. Það er augljóslega erfitt þegar uppstilling og leikmannaval er sífellt að breytast en ætli það sé ekki spurningin um hænuna eða eggið? Leikurinn í kvöld var gott skref í rétta átt. Það verður spennandi að sjá hvort menn nái að byggja á þessu og sjáum til hvað Stebbi Gísla gerir með liðið í næsta leik.

Hvað nú?

Snýtum okkur og hlýjum undir sæng í nótt. Vöknum sátt á lygnum sjó um miðja deild á morgun. Það er vika í næsta verkefni og er það gegn Keflavík suður með sjó. Þeir mæta Þórsurum fyrir norðan um helgina svo við höfum tveggja daga hvíld og undirbúning á þá ásamt því að hafa klárað töluvert auðveldari andstæðing í þessari umferð. Við viljum sjá okkar menn klára í slaginn fyrir annan statement-sigur í Bítlabænum.
#ÁframLeiknir

#StoltBreiðholts

85 views0 comments