• Ljón

Í Sóttkví með Kristó Sigurgeirs


Næsti skemmtilegi Leiknismaðurinn sem deilir með okkur heilráðum í inniverunni er enginn annar en Kristó Sigurgeirs. Hann var með stjórnartaumana í Meistaraflokki árið 2017 og fór með liðið í fyrsta sinn í undanúrslit Bikarkeppninnar eins og við skoðuðum í fyrra. Hann var svo farinn frá félaginu snemma sumarið 2018 en er tíður gestur á Domusnova-vellinum ennþá að fylgjast með strákunum okkar.


Hvað ertu að lesa?: Ég get nú ekki sagt að ég sé mikill lestrarhestur, hef þó verið að glugga aðeins í bækur á kindle, mæli þá sérstaklega með bókinni „Legacy“ eftir James Kerr, bók sem allir tengdir íþróttum ættu að lesa. Fjallar um „All Blacks“ Rugby liðið frá Nýja Sjálandi, lið sem er með um 80% sigurhlutfall og er farið í gegnum hugmyndafræði þeirra við að búa til lið.

Hvað ertu að horfa á (þættir)?: Prófaði fyrsta þáttinn af Formula 1 á Netflix, sýnist ég muni vera að horfa á þá næstu daga.

Hvað ertu að horfa á (bíómyndir)?: Úrvalið er nú ekki spennandi þessi árin þykir mér, allt einhverjar Marvel myndir sem ég tengi bara engan veginn við. Svo ég er bara meira í þáttaröðunum.

Hvað ertu að hlusta á (tónlist)?: Ég er mest í rokkinu þó maður detti nú í ballöðugírinn öðru hverju. Mikill Skálmaldarmaður og hef ég farið á ófáa tónleika með þeim, pitturinn þar er engu líkur. Svo er danskt band sem heitir Volbeat mikið í spilaranum hjá mér þessa dagana.

Hvað ertu að hlusta á (podcast)?: Hef eiginlega ekkert dottið inn í podcastið, en þó hef hlustað á nokkra þætti af vinum mínum í Dr. Football. Lofa að taka nokkur Ljónavörp næstu daga :)

Ef þú gætir séð einhvern fótboltaleik úr fortíðinni aftur núna í fyrsta sinn. Hvaða leikur væri það?: Ég væri til í að ná nokkrum í beit, Bikarrönnið 2017 gegn Þrótti, Grindavík, ÍA og FH.


Þú verður læstur í sóttkví næstu 30 daga með 5 manns sem þú mátt velja 1 úr hverjum flokki eftifarandi, lífs eða liðinn:

Hollywood stjarna: Gordon Ramsey, sér um matinn.

Íþróttastjarna: Hristo Stoichkov, yrði gaman að vera með þeim besta í smá tíma.

Tónlistamaður: Bruce Springsteen með kassagítarinn

Grínisti: Ricky Gervais, það yrði mikið hlegið

Sögufræg persóna: Elvis, hann og Bruce saman, það væri eitthvað.

Held að maður vildi nú ekkert fara úr sóttkví ef maður deildi 30 dögum með þessum snillingum.Ef þú mættir bara borða eina tegund matar í 30 daga, hvað væri það og af hverju?:

Hef miklar mætur af ítölskum mat, en sami matur í 30 daga, úfff, má það ekki bara vera allur ítalskur matur, þá er allaveganna úrval.

Hvernig nærðu að hreyfa þig án æfinga/líkamsræktarstöðva?: Ég rölti í bílskúrinn hjá mér, er með hlaupabretti þar og svo bara skellt sér í gott Core prógramm sem ég veit að leikmenn mfl Leiknis hafa miklar mætur á :)


Einhver hvatningarorð/kveðjuorð fyrir önnur Leiknisljón um þessar mundir?:

Þetta eru skrýtnir tímar þessa dagana sem og næstu vikur. En við munum komast í gegnum þetta með sameiginlegu átaki og fyrr en varir verður fótboltinn kominn á fulla ferð á nýjan leik. Notið hugmyndaflugið við æfingar heima við, endalaust til á veraldarvefnum af góðum æfingum en ég mæli nú sérstaklega með mysoccer4u.com fyrir yngri iðkendurna, vill svo skemmtilega til að ég er með þá síðu :) Þar set ég upp nýjan æfingadag á hverjum degi með 8-9 æfingum og lang mest af þessum æfingum er hægt að gera heima við með boltann sinn.

Sjáumst svo bara á Ghettó Ground í sumar þar sem liðið okkar á eftir að fara á kostum.89 views0 comments

Recent Posts

See All