Gyrðir Hrafn Guðbrandsson

Gyrðir Hrafn er nýr liðsmaður Leiknis sem er nýskriðinn yfir tvítugt. Hann kom frá Vesturbæjarstórveldinu í haust þar sem hann hafði spilað frá 13 ára aldri og meðal annars keppt í Meistaradeild ungliða fyrir KR. Gyrðir gerði tveggja ára samning við Leikni í haust svo við njótum krafta hans út næsta tímabil hið minnsta. Hann virðist hafa lent í vondum meiðslum fyrir 2 árum og vistaskiptin koma í framhaldi af endurkomu hans á síðasta ári. 

Það er óhætt að segja að það sé nokkuð mikil eftirvænting meðal Leiknisljóna að sjá drenginn á vellinum. Þeir sem þekkja betur til segja að á ferðinni sé stæðilegur ungur leikmaður sem á eftir að koma virkilega sterkur undan vetri. Hann spilaði á miðjunni í bikarleiknum gegn Fjölni, sínum fyrsta Meistaraflokksleik á ævinni, og skoraði eina mark Leiknis í þeim leik. Hann er þekktari fyrir að spila miðvörðinn. 

Það verður áhugavert að sjá hvar Stefán ætlar að spila honum í sumar en eins og svo oft áður, þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að enginn skakkaföll verði og það reyni ekki á breidd liðsins. 

Gyrðir hefur komist í æfingahópa unglingalandsliða en ekki spilað fyrir þau og allavega heimsótt Lilleström í Noregi.